

Foreldrarnir stíga fram í skjóli nafnleyndar. Annars vegar foreldrar ungs drengs og hins vegar móðir ungrar stúlku.
Foreldrar drengsins höfðu tekið eftir breyttri hegðun sonarins um mánuði áður en Hannes var handtekinn. Hann fór að óttast karlmenn, streitast á móti við bleyjuskipti, sýna merki um sársauka á bleyjusvæði án sjáanlegra útskýringa og fá martraðir. Um leið og fréttir bárust af handtökunni runnu tvær grímur á foreldra drengsins. Þau kærðu meint brot gegn syni sínum til lögreglu og gagnrýndu hversu kraftlaus rannsóknin var. Til dæmis fékk faðir drengsins ekki að gefa skýrslu.
Móður stúlkunnar fór að gruna að brotið hefði verið gegn dóttur hennar rúmu ári áður en Hannes var handtekinn.
Varað er við eftirfarandi lýsingu móðurinnar á hegðun barnsins sem vakti grun um að brotið hefði verið gegn henni.
Stúlkan fór að biðja móður sína um að kyssa sig á einkasvæði sínu eftir sturtu og frá byrjun árs 2024 átti stúlkan erfitt með baðferðir og svefn. Hún vaknaði um nætur skelfingu lostin, hélt um klofið á sér og hrópaði: „Nei, nei, nei, ái, ái, ái. Og í hvert skipti hélt hún um klofið á sér.“
Þegar stúlkan hafði róað sig niður spurði móðirin hvað væri svona vont.
„Þá grípur hún um klofið á sér og segir: Ái, ekki. Skrímslið.“
Þegar móðursystir stúlkunnar tók líka eftir hegðuninni ákvað móðirin að láta stjórnendur Múlaborgar vita. Þeim leist illa á þessa hegðun og sögðu móðurinni að láta stúlkuna njóta vafans. Því leitaði móðirin á barnaspítalann og loks til lögreglu. Móðirin upplifði ekki að lögreglan tæki málinu alvarlega, þótt lögreglan segði annað. Til dæmis var faðir stúlkunnar ekki kallaður í skýrslutöku og ekki látinn vita af rannsókninni. Fljótlega fékk móðirin símtal um að rannsókn hefði verið hætt vegna skorts á sönnunargögnum.
Um ung börn er að ræða og samkvæmt sérfræðingum í málefnum barna sem Kveikur ræddi við gerir það málin einstaklega erfið þar sem börnin geta sum ekki tjáð sig um brotin sökum þroska.
Múlaborg ákvað þó að breyta verkferlum með dóttur Stellu, enda þoldi hún illa bleyjuskipti. Aðeins deildarstjóri og uppáhaldsstarfsmaður hennar fengu að skipta á henni. Móðirin segir að þar með hafi meintur gerandi ekki lengur getað verið með henni einn, en samhliða gagnrýnir hún að deildarstjórinn hafi ekki tilkynnt það til Barnaverndar að stúlkan væri að „taka trylling“ við bleyjuskipti og grípa um klofið á sér.
Eftir að Hannes var handtekinn fór móðir stúlkunnar beint upp á leikskóla enda vissi hún strax að hér væri um að ræða leikskóla dóttur hennar og að líklega væri dóttir hennar þolandi sama aðila.
„Þá segir leikskólastjórinn við mig: „Málið hennar varðaði ekkert leikskólann, þannig tengdist ekkert leikskólanum.“
Kveikur segir marga foreldra óánægða með þá upplýsingagjöf sem þeir fengu í málinu. Til dæmis hafi margir frétt fyrst af málinu í gegnum fjölmiðla. Foreldrarnir sem ræddu við Kveik gerðu líka athugasemdir við rannsókn lögreglu, þá einkum móðir stúlkunnar sem furðar sig á því að lögregla hafi hvorki rætt við barnsföður hennar, fjölskyldumeðlimi né leikskólann sjálfan.
Bylgja Hrönn Baldursdóttir, starfsmaður kynferðisafbrotadeildar, segir mál sem þessi þau erfiðustu sem lögreglan rannsakar því þolendur séu sumir ómálga og sönnunarfærslan mjög erfið.
Sjá einnig: Múlaborgarmálið: Hannes ákærður fyrir tvö brot gegn einu barni