fbpx
Laugardagur 08.nóvember 2025
Fréttir

Stormur í kringum rándýr gervigreindarnámskeið og Sergio sakaður um svik og pretti – „Þetta eru bara lygasögur“

Ritstjórn DV
Laugardaginn 8. nóvember 2025 12:22

Námskeið Sergio eru afar umdeild og er hann meðal annars sakaður um að starfrækja pýramídasvindl

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Talsverður stormur geisar í kringum gervigreindarnámskeið tvítugs manns sem sakaður er um að rukka barnunga einstaklinga um háar fjárhæðir fyrir námskeið sem sögð eru vera hálfgerður blekkingarleikur. Hefur námskeiðshaldarinn sjálfur brugðist við með yfirlýsingu þar sem hann segist verða fyrir hótunum og vísar meintum blekkingum alfarið á bug.

Ungt fólk hvatt til lántöku

Hinn tvítugi Sergio Herrero Medina, sem að eigin sögn fluttist til Íslands á barnsaldri, hefur staðið fyrir svokölluðum gervigreindar Masterclass-námskeiðum undanfarin misseri en eitt slíkt átti að hefjast þann 30. október síðastliðinn.

Fáir nemendur, um tíu talsins, sitja hvert námskeið en þátttökugjaldið er sagt vera á bilinu 1,2 – 2 milljónir króna. Fæst ungt fólk á slíkar upphæðir á lausu og hefur Sergio verið sakaður um að hvetja ungt fólk til þess að taka lán hjá ástvinum eða bönkum til þess að borga fyrir þátttökugjaldið.

Á námskeiðinu segist Sergio ætla að kenna þátttakendum svokallað AI partnering, sem að hans sögn snýst um að þjónusta fyrirtæki við markaðsstarf á netinu með aðstoð gervigreindar. Fullyrðir Sergio að hægt sé að þéna háar fjárhæðir með þessum hætti og losna undan því að vera launamaður í 9-17 vinnu.

„Þetta er klassískt pýramídasvindl“

Á samfélagsmiðlum gerir Sergio mikið úr meintri velgengni sinni og hvað hann græði mikið af peningum og hvernig það geri honum kleift að fjármagna dýran og eftirsóknarverðan lífstíl.

Þá hefur mynd sem Sergio notar til þess að auglýsa velgengi sína vakið nokkra athygli. Myndin er frá Times Square í New York en á henni má sjá Sergio ásamt viðskiptafélaga sínum. Í baksýn er auglýsing á fyrirtæki sem Sergio kveðst eiga PropelSolar.  Engar upplýsingar er að finna um tilvist þessa fyrirtækis og bendir ýmislegt til þess að myndin sé fölsuð.

Nútíminn hefur á undanförnum dögum fjallað ítarlega um málið og birti í gær nafnlausar frásagnir þátttakenda, sem miðillinn kveðst hafa sannreynt.

Þar er lýst hvernig Sergio hafi pressað á áhugasama þátttakendur um að stökkva á tækifærið og fjárfesta í sjálfum sér. Fullyrðir einn viðmælandi að þeir sem skrái sig á námskeið Sergio fari ekki að vinna við AI partnering heldur verði einskonar sendiherrar hans og byrji að selja öðrum pláss í næstu námskeiðum.

„Þetta er klassískt pýramídasvindl. Þeir sem eru komnir inn eru nú orðnir sölumenn fyrir næsta stig í keðjunni,“ segir viðmælandinn.

Vísar ásökunum alfarið á bug

Sergio hefur ekki brugðist við skilaboðum frá DV vegna málsins en síðustu daga hefur hann birt tvö myndbönd á samfélagsmiðlum þar sem hann vísar ásökunum alfarið á bug.

Hann kveðst ekki selja börnum undir 18 ára aldri pláss á námskeiðum sínum. Það hafi gerst einu sinni en þegar hann komst að því hvernig var í pottinn búið hafi hann endurgreitt viðkomandi.

Þá fullyrðir hann að hann hafi fengið hótanir vegna málsins og það muni hann ekki líða.

„Þú veist hver þú ert,“ segir Sergio herskár á einum stað í myndbandinu.

Á öðrum stað bregst Sergio við gagnrýni um að hann sé ekki að gefa upp hvaða fyrirtæki hann er að þjónusta með AI partnering og uppskera ríkulega. Segir Sergio að allir sem þekki viðskipti hljóti að skilja það að hann þurfi að skrifa undir trúnaðarsamkomulag við þessi fyrirtæki og geti því ekki gefið upp nöfn þeirra.

Hann hafi hins vegar fengið leyfi frá einum einyrkja að gefa upp viðskiptatengsl þeirra. Sá starfrækir vinsæla Instagramsíðu, travelwithJaro

Veistu meira um málið? Sendu okkur tölvupóst á ritstjorn@dv.is. Fullum trúnaði heitið.

Hér má sjá tvö myndbönd Sergio þar sem hann ver sig

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lést á Hrunavegi eftir að hafa ekið á röngum vegarhelmingi á afskráðum jeppa

Lést á Hrunavegi eftir að hafa ekið á röngum vegarhelmingi á afskráðum jeppa
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sigríður ber fullt traust til saksóknarans og leiðréttir Morgunblaðið

Sigríður ber fullt traust til saksóknarans og leiðréttir Morgunblaðið