

Jóhann segir frá þessu í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag þar sem hann segir að þau hjónin hafi fengið óvænt skemmtilegan tölvupóst þann 3. nóvember síðastliðinn frá DAS – Hrafnistu-leiguíbúðum þar sem þau höfðu átt inni umsókn til nokkurs tíma. Skildi Jóhann það þannig að þau ættu möguleika á íbúð sem væri laus í Boðaþingi.
„Nánar tiltekið er íbúðin 76 fermetrar með einu svefnherbergi. Leiguverð miðað við verðlag í nóvember 2025 er 306.707 á mánuði. Svo komu ýmsar aðrar gagnlegar staðlaðar upplýsingar varðandi íbúðina og ýmsar kvaðir bæði fyrir leigjendur og skyldur leigusala. Allt gott og blessað,“ segir Jóhann og bætir við að neðst í upptalningunni hafi komið skrýtin setning sem hljóðaði svo:
„Fyrstur kemur fyrstur fær!“
„Flaug strax í gegnum hugann hvort íbúðarúthlutun þessi færi ekki eftir númeri og umsóknarferli umsækjanda, eða hvort það væri eitthvert kapphlaup í gangi,“ segir Jóhann og bætir við að undir tölvupóstinn hafi skrifað verkefnastjóri.
„Vorum við hjónin auðvitað mikið glöð yfir þessu, þar sem við töldum að við gætum treyst þessum upplýsingum. Svaraði ég strax að við myndum þiggja þessa íbúð þar sem allt varðandi hana hentaði okkur afar vel, bæði staðsetningin, stærðin og tímasetningin,“ segir Jóhann sem kveðst hafa beðið verkefnastjórann um að senda honum allar upplýsingar varðandi greiðslur og annað. Jóhann segir síðan að daginn eftir, þann 4. nóvember klukkan 09:47, hafi svo komið tölvupóstur sem hljóðaði svona:
„Það er einn sem er á undan þér og ég er að fara að sýna honum íbúðina í dag. Ég læt ykkur vita ef hann þiggur ekki.“
Þetta segir Jóhann að hafi verið mikil vonbrigði og segir hann að þau hjónin hafi verið afar hissa á þessu úthlutunarferli.
„Þar hét maður að allt væri í föstum skorðum, heiðarleiki, skipulag og reglufesta í hávegum höfð. En svo er greinilega ekki. Hinn umsækjandinn, með fullri virðingu fyrir honum, var á undan mér, segir verkefnastjórinn, og vann kapphlaupið,“ segir Jóhann í grein sinni í Morgunblaðinu og veltir fyrir sér hvað sé átt við.
„Var hann á undan mér að svara tölvupóstinum eða var hann á undan mér í umsóknarferlinu? Ef svo hefði verið hefði ég aldrei átt að fá þessa tilkynningu um íbúðina í upphafi. Það virðist vera eitthvert kapphlaup í gangi eða er það kannski eitthvað annað sem hangir á spýtunni? Hvað veit ég? Þess vegna hef ég beðið stjórn DAS-íbúða að útskýra fyrir mér hvers konar úthlutunarkerfi er hjá þessari annars gamalgrónu og viðurkenndu stofnun varðandi meðferð umsókna.“
Jóhann segir að það eigi ekki að fara á milli mála hver geti fengið íbúð úthlutaða og allt eigi að vera á hreinu til að valda ekki fólki fyrst gleði en síðan nokkrum klukkustundum síðar vonbrigðum.
„Það á ekki að hafa tilfinningar fólks í flimtingum, sama hvort það er ungt eða gamalt. Það er ljótur leikur.“