

Þar skrifar hún um áform sem kynnt voru í september síðastliðnum um að leggja niður Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga.
Samkvæmt fyrirhuguðum breytingum verður ábyrgð á eftirliti með hollustuháttum og mengunarvörnum færð frá heilbrigðiseftirliti til Umhverfis- og orkustofnunar og ábyrgð á eftirliti með matvælum færist frá heilbrigðiseftirliti til Matvælastofnunar. Þannig verða eftirlitsaðilar tveir í stað ellefu. Útgáfa starfsleyfa verður miðlæg og á vegum fyrrgreindra stofnana.
Í grein sinni segir Sesselja að það geti ekki talist til bóta að slíta í sundur verkefni heilbrigðiseftirlits, hvorki fyrir fyrirtækin í landinu né almenning, það muni ekki einfalda eða auka skilvirkni.
„Mörg fyrirtæki munu fá tvo eða jafnvel þrjá eftirlitsaðila í stað þess að fá eitt eftirlit. Leyfiskostnaður og eftirlitsgjöld munu hækka umtalsvert, sem mun bitna mest á minni fyrirtækjum. Ef þau áform stjórnvalda ganga eftir að leggja niður heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga liggur beinast við að starfsheitið heilbrigðisfulltrúi verði lagt niður. Um er að ræða verndað starfsheiti sem aðeins þeir sem hafa fengið sérstakt leyfi til geta haft, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum,“ segir hún og bætir við:
„Það væri synd og skömm að fella niður jafn mikilvæga starfsstétt og heilbrigðisfulltrúar eru.“
Sesselja segir að heilbrigðisfulltrúar sinni mikilvægum verkefnum og grípi inn í þegar hætta steðjar að. Þessi störf séu mikilvægari en flestir átta sig á því mörg séu falin. Ekki sé auglýst í hvert sinn sem heilbrigðiseftirlitið grípur til aðgerða og kemur í veg fyrir veikindi, slys eða hættur.
„Dæmi um aðgerðir heilbrigðiseftirlits er lokun veitingastaðar þar sem matvæli geta verið hættuleg og valdið veikindum hjá fólki. Annað dæmi er leikvallartæki sem er hættulegt börnum og er tekið úr notkun. Mengandi starfsemi sem er stöðvuð þar sem mengunarvarnabúnaður fyrirfinnst ekki og veldur mengun í umhverfinu. Óhrein sundlaug eða heitur pottur sem er óæskilegt fyrir fólk að baða sig í þar sem bakteríur geta fjölgað sér og valdið húðsýkingum.“
Sesselja segir að yfirvöld ættu að sjá sóma sinn í að styðja við jafn mikilvæga stétt og heilbrigðisfulltrúar eru og efla menntun og endurmenntun.
„Rétta leiðin til að samræma heilbrigðiseftirlit á landinu er ekki að leggja heilbrigðiseftirlitið niður og tvístra verkefnunum í sundur og á milli þriggja aðila (Matvælastofnunar, Umhverfis- og orkustofnunar og sveitarfélaga). Besta leiðin til að samræma eftirlit er að efla þjálfun og menntun starfsmanna og auka samtal og samvinnu milli svæða.“