
Þann 27. október var kveðinn upp dómur í Héraðsdómi Reykjaness yfir manni fyrir annars vegar líkamsárás og hins vegar hótanir.
Í ákæru var hann sakaður um að hafa miðvikudaginn 13. desember árið 2023, inni í verslun AB varahluta í Reykjanesbæ, ýtt manni utan í hillu með líkama sínum og í kjölfarið veitt honum eftirför inni í versluninni og sparkað með hné í vinstra læri eða síðu brotaþolans.
Hins vegar var hann ákærður fyrir hótanir gagnvart þessum sama manni á tímabilinu 1. júní 2023 til 13. júní sama ár. Er hann sakaður um að hafa hótað manninu barsmíðum og lífláti nokkrum sinnum og áttu þær hótanir sér stað í og við þessa sömu varahlutaverslun.
Ákærði játaði brot sín fyrir dómi og var dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi. Einnig var hann dæmdur til að greiða brotaþola 250 þúsund krónur í miskabætur.
Dóminn má lesa hér.