Samkvæmt nýrri könnun Maskínu vilja 88 prósent landsmanna að einkunnir í íslenskum skólum séu gefnar í tölustöfum. Það er sérstaklega unga fólkið sem er hrifið af tölustöfum en 93,2 prósent svarenda á aldrinum 18-29 ára vilja tölustafi samanborið við 82 prósent svarenda á aldrinum 40-49 ára.
Aðeins 2,6 prósent svarenda vilja bókstafi en 9,4 prósent telja það ekki skipta máli hvort einkunnir séu gefnar í tölu- eða bókstöfum.
Fjöldi svarenda sem tók afstöðu var 924.
Kjósendur Sjálfstæðisflokks og Miðflokks eru hrifnastir af tölustöfunum en 97,6 prósent Miðflokksmanna vilja tölustafi og 96,6 prósent Sjálfstæðismanna. Píratar og Vinstri Grænir eru minnst hrifnir af tölustöfunum en aðeins 77,1 prósent Pírata vilja tölustafi og 78,1 prósent Vinstri Grænna.
Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Svarendur eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Könnunin fór fram dagana 15. til 19. september og voru svarendur 990 talsins.