fbpx
Laugardagur 04.október 2025
Fréttir

Spyr hvort mark sé takandi dularfullum Samtökum skattgreiðenda – Vöknuðu til lífsins við stjórnarskiptin

Ritstjórn DV
Laugardaginn 4. október 2025 10:41

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Forseti Bandalags íslenskra listamanna (BÍL) gerir athugasemd við úttekt Samtaka skattgreiðenda á starfslaunum listamanna sem sé bæði illa unnin og röng. Hvetur hún samtökin til að vanda sig betur í framtíðinni og mögulega leita sér aðstoðar við tölfræðina, enda heilindi samtakanna í húfi. Þetta kemur fram í grein Jónu Hlífar Halldórsdóttur, forseta BÍL, sem birtist hjá Vísi í gærkvöldi.

Tilefni greinarinnar er hávær umræða sem hefur átt sér stað undanfarna viku um starfslaun rithöfunda eftir að Morgunblaðið fjallaði um úttekt Samtaka skattgreiðenda í helgarblaði sínu. Þar eru taldir upp þeir 10 rithöfundar sem mest hafa fengið í starfslaun síðustu 25 árin og eins var farið yfir útgefin verk þeirra og launum deilt niður á hverja útgefna blaðsíðu. Hins vegar hafa rithöfundar á listanum nú greint frá því að verk þeirra hafi þar verið gróflega vantalin.

Illa unnin og röng

Jóna bendir á að það séu ekki bara verkin sem séu vantalin.

„Eitt það versta við „úttektina“ er að hún er svo illa unnin að ónafngreindum höfundi hennar auðnaðist ekki einu sinni að tína til réttan samanlagðan fjölda mánaða hvers rithöfundar fyrir sig. Sé lauslega litið yfir listann kemur í ljós að a.m.k þrír rithöfundar eru taldir upp oftar en einu sinni. Mögulega þekkti óþekkti úttektarhöfundurinn bara enga höfunda með nafni og mögulega er viðkomandi hreinlega að kynna sér starfsumhverfi bókmennta hér á landi í fyrsta skipti. En fyrst ekki var hægt að telja sómasamlega saman heildarmánuði höfunda, er þá eitthvað að marka framsettar tölur?“

Eins hafi úttektin markfaldað úthlutaðan mánaðarfjölda starfslauna með þeirri fjárhæð sem er greidd fyrir hvern mánuð í dag, en það er ekki sú fjárhæð sem rithöfundarnir í raun fengu fyrir hvern mánuð síðustu 25 árin. Þvert á móti bendir Jóna á að listamannalaun hafi hækkað um 96% frá árinu 2011 á sama tíma og launavísitala hækkaði um 160%. Beinir hún því til samtakanna að leita sér aðstoðar í framtíðinni til að forðast sambærileg mistök.

Ógagnsæ samtök

Jóna setur eins spurningarmerki við samtökin sjálf. Þau hafi verið stofnuð árið 2012 og voru áberandi næstu tvö árin. Svo virðist þau hafa lagst í dvala og sent frá sér upplýsingar með óreglulegum hætti þar til nýlega. Til dæmis hafi engar nýjar fréttir birst á vefsíðu samtakanna frá 2016 þar til á þessu ári.

„Á undanförnum árum virðast engir ársreikningar félagsins hafa verið birtir og engir aðalfundir auglýstir, eða um þá fjallað á vef þeirra. Líklega eru í stjórn samtakanna sama fólk og var kjörið í stjórn fyrir rúmum áratug, en þó bregður bara einum stjórnarmanni fyrir á fésbókarsíðu samtakanna. Ef einhvern fýsir að ganga til liðs við þessi frjálsu félagasamtök eru ekki beinlínis hæg heimatök að skrá sig í félagið, en öllum er frjálst og auðsótt mál að styrkja þau með peningaframlagi.“

Jóna segir í sjálfu sér fréttnæmt að jafn ógagnsæ samtök hafi tekið að sér að gera svona úttekt enda ekki hlaupið að því að finna út hvenær þau birtu viðlíka síðast. Eins sé úttektin ekki hlutlaus heldur beinlínis ætlað fram að styðja við fyrirfram gefna niðurstöðu.

„Að rithöfundar fái of mikið úr ríkissjóði en séu ekki að skrifa nógu margar blaðsíður fyrir fjármunina.“

Virkni og vanvirkni Samtaka skattgreiðenda

Sá maður sem hefur komið fram fyrir samtökin í opinberri umræðu, og er skráður forráðamaður þess og eigandi í fyrirtækjaskrá, er Skafti Harðarson. Það er rétt hjá Jónu að lítið hefur farið fyrir samtökunum undanfarinn áratug.

Á síðasta ári ræddi Skafti við Bítið á Bylgjunni um útgáfu Tekjublaðsins, sem hann er á móti. „Útgáfa þessa blaðs byggir á lægstu hvötum okkar mannanna. Þetta er hnýsni, öfund og samanburðarfræði. Þetta er auðvitað algjörlega verið að hræra í afskaplega ósmekklegum drullupolli,“ sagði Skafti við það tilefni en þá höfðu samtökin vaknað úr dvala frá árinu 2016 ef marka má fréttaveitu samtakanna.

Samtökin láta þó heyra í sér í tengslum við Alþingiskosningar. Árið 2021 vöktu þau athygli þegar þau kynntu stjórnarskiptarúlletu þar sem leiðtogum allra annarra flokka en Sjálfstæðisflokksins var stillt upp í spilakassaleik. Árið 2017 keyptu þau auglýsingar bæði í útvarpi og á samfélagsmiðlum þar sem varað var við skattatillögum nokkurra stjórnmálaflokka sem þá buðu fram. Þar með má álykta að Samtökin séu einkum virk þegar Samfylkingin er í ríkisstjórn (þegar samtökin voru stofnuð og svo nú), eða þegar hætt er við því að Samfylkingin komist í ríkisstjórn. Skafti tekið fram að samtök hans séu ópólitísk, en sjálfur er hann Sjálfstæðismaður, hefur verið stjórnarmaður í Heimdalli og Vöku og var einn stofnenda Félags frjálshyggjumanna. Árið 2018 leiddi hann þó nýtt framboð á Seltjarnarnesi sem hét Fyrir Seltjarnarnes.

Eins hafa samtökin talað fyrir frjálsri áfengissölu, lægri sköttum á áfengi og fyrir auknum sjálfstæðum rekstri í skólakerfinu.

Kosta en borga sig

Jóna tekur fram að starfslaun listamanna kosti fjármuni á sama tíma og þau borga sig. Það hafi ætíð borgað sig að verja fjármunum í listir og skapandi greinar. Opinberir styrkir séu að sama bragði greiddir til stjórnmálaflokka og fjölmiðla sem líkt og listgreinar styðja tjáningarfrelsi og lýðræði. Eins skapi launin stöðugleika til þess að listum og menningu sé sinnt í alvörunni hér á landi. Svipað sé við lýði á hinum Norðurlöndunum. Listir og menning lúti ekki bara lögmálum markaðarins.

„Það þarf að styðja við fólk til að skrifa og gefa út fleiri bækur en bara þær sem markaðurinn vill kaupa og selja.“

Jóna kallar eftir umræðu á hærra plani og bendir á að mánaðarleg greiðsla listamanna hefur rýrnað verulega í samanburði við launaþróun á Íslandi.

„Niðurstaða BÍL er því þessi: Stjórnvöld ættu snarlega að leiðrétta mánaðarlega upphæð starfslauna listamanna.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Tekin undir stýri við Njarðargötu með lífshættulegt áfengismagn í blóði – Ellefti dómurinn á nokkrum árum

Tekin undir stýri við Njarðargötu með lífshættulegt áfengismagn í blóði – Ellefti dómurinn á nokkrum árum
Fréttir
Í gær

Kæru Sameindar hafnað – Konukot fær að rísa í Ármúla

Kæru Sameindar hafnað – Konukot fær að rísa í Ármúla
Fréttir
Í gær

Elon Musk rak starfsmann á staðnum sem benti honum á að hann væri orðinn óvinsæll

Elon Musk rak starfsmann á staðnum sem benti honum á að hann væri orðinn óvinsæll
Fréttir
Í gær

Telur leigjendur á Íslandi vantalda um 75.000 – „Það er nú svolítið mikil skekkja.“

Telur leigjendur á Íslandi vantalda um 75.000 – „Það er nú svolítið mikil skekkja.“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ný afbrigði COVID láta á sér kræla með sársaukafullum einkennum

Ný afbrigði COVID láta á sér kræla með sársaukafullum einkennum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Franskir hermenn réðust um borð í skip sem tilheyrir skuggaflota Rússa – Talið tengjast dularfullu drónaflugi sem valdið hefur usla

Franskir hermenn réðust um borð í skip sem tilheyrir skuggaflota Rússa – Talið tengjast dularfullu drónaflugi sem valdið hefur usla
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hanna Birna: Svartur dagur í dag – „Það má spara í mörgu en ekki lífsgæðum fólks“

Hanna Birna: Svartur dagur í dag – „Það má spara í mörgu en ekki lífsgæðum fólks“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Danir ætla að kjósa með því að Ísrael fái að taka þátt í Eurovision – Keppnin eigi að vera ópólitísk

Danir ætla að kjósa með því að Ísrael fái að taka þátt í Eurovision – Keppnin eigi að vera ópólitísk