Maður sem er ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás á Litla-Hrauni þann 3. febrúar árið 2024 krafðist þess að þinghöld í máli ákæruvaldsins gegn honum yrðu háð fyrir luktum dyrum. Til vara krafðist hann þess að bann yrði lagt við opinberri frásögn af þinghöldum í málinu. Hvorki Héraðsdómur né Landsréttur féllust á kröfurnar.
Sjá einnig: Ákærður fyrir hættulega líkamsárás á Litla-Hrauni
Árásin átti sér stað í fangaklefa, en ákærða er gert að sök að hafa veist að samfanga sínum á Litla-Hrauni með ofbeldi þar sem brotaþoli sat á rúmi sínu. Þá mun hann, íklæddur skóm, hafa endurtekið sparkað í höfuð brotaþola með þeim afleiðingum að brotaþoli hlaut bólgu og bjúg vinstra megin á enni og yfir kinn, 8 mm skurð við vinstri augabrún, 15 mm skurð yfir vinstra kinnbeini og blæðingar í húð vinstra megin á enni.
Ákærði taldi nauðsynlegt að hafa þinghöld í málinu fyrir luktum dyrum honum til hlífðar. Í málinu verði fjallað um viðkvæm sjúkragögn sem varða hann sjálfan og geðrænt ástand hans. Þetta séu viðkvæmustu gögnin sem hver einstaklingur á. Eins liggi fyrir að dómkvaddur matsmaður muni leggja mat á geðrænt ástand ákærða og gætu þær upplýsingar verið mjög viðkvæmar.
Ákærði byggði einnig á því að loka þyrfti þinghaldi til að vernda vandamann hans, ólögráða barn á viðkvæmum aldri, enda kynni umfjöllun að hafa slæmar afleiðingar fyrir það. Eins gæti brotaþoli haft hagsmuni af því að þinghald verði lokað, en afstaða brotaþola liggur ekki fyrir.
Ákæruvaldið lét málið ekki til sín taka.
Dómari rakti að samkvæmt stjórnarskrá Íslands skuli þinghöld vera háð í heyranda hljóði nema dómari ákveði annað lögum samkvæmt til að gæta velsæmis, allsherjarreglu, öryggis ríkisins eða hagsmuna málsaðila. Samkvæmt lögum um meðferð sakamála geti dómari ákveðið að loka þinghaldi að öllu leyti eða að hluta til að hlífa sakborningi, brotaþola, vandamanni þeirra, vitni eða öðrum sem málið varðar. Dómara beri að meta og vega aðstæður í hverju tilviki og vera reiðubúinn að rökstyðja það sérstaklega ef hann telur ástæðu til að loka þinghaldi.
Dómari rakti að framangreint sé undantekning frá meginreglu um opið þinghald og því þurfi að túlka heimildina þröngt. Sakborningar þurfi almennt að þola það að fjallað sé um sakir sem á þá eru bornar fyrir opnum tjöldum og jafnvel þó slík umfjöllun sé yfirleitt þungbær fyrir ákærða nægi það ekki eitt og sér til þess að þinghaldi sé lokað. Meira þurfi að koma til.
Dómari taldi sjúkragögn ákærða ekki styðja að aðstæður verði óvenju íþyngjandi fyrir hann, þar með væru ekki forsendur til að fallast á kröfu um lokað þinghald. Hvað varðar rök um ætluð áhrif á barn ákærða þá hafi þau ekki verið studd frekari röksemdum eða gögnum. Það sé svo undir brotaþola sjálfum komið að fara fram á lokað þinghald, telji hann tilefni til.
Svipuð rök eigi við um varakröfu ákærða – að banna opinbera frásögn af þinghöldum. Ákærði hafi ekki fært nægilega góð rök fyrir slíku banni.