

„Á sama tíma og við kveðjum börnin okkar út í daginn á morgnana og segjum þeim að passa sig í umferðinni þá réttum við þeim tæki þar sem allir heimsins verstu hrottar geta komist í samband við þau með einföldum hætti. Í gegnum leiki sem þau spila og samfélagsmiðla sem þau nota,“ segir Ása Berglind Hjálmarsdóttir, þingmaður í Samfylkingarinnar, í aðsendri grein á Vísir.is.
Ása vísar til umfjölluna Kastjlóss á þriðjudagskvöld um íslenska stúlku sem lenti í klóm aflþjóðlegs netofbeldishóps þar sem hún horfði á margskonar viðurstyggilegt ofbeldi í beinu streymi og var sjálf neydd til að skaða sjálfa sig. DV hefur einnig fjallað um þetta mál, sjá hér.
Ása segir í grein sinni að nú sé tími aðgerða runninn upp hvað varðar samfélagsmiðlanotkun barna. Á næstunni leggur mennta- og barnamálaráðherra fram frumvarp sem styrkir heimildir hans til að samræma reglur um notkun snjalltækja í grunnskólum. Ása segir þetta vera mikilvægt skref. Hún bendir á að í Grunnskóla Þorlákshafnar hafi símanotkun verið bönnuð með öllu síðasta vetur en símar höfðu áður verið leyfðir í 8.-10. bekk. Hafði þetta mjög jákvæð áhrif á skólamenninguna en skólastjórinn Ólína Þorleifsdóttir segir um þetta:
„Við sjáum mikinn mun á skólamenningunni hjá okkur. Áður var ótrúlega sorglegt að ganga um gangana í frímínútum í dauðaþögn, allir voru í sínum heimi með símana og enginn að tala saman. Það sem hefur breyst síðan símabannið tók við er alveg ótrúlegt. Nú er fjör og skemmtilegt í frímínútunum og allt félagslíf í skólanum hefur blómstrað virkilega mikið á þessu ári.“
Ása segir að eftir nokkur ár mumun við hugsa til þess tíma þegar við leyfðum síma í skólastarfi eins og við hugsum núna til þess tíma þegar foreldrar reyktu yfir börnum sínum á heimilum og í bílum. Við munum spyrja okkur:
„Hvað vorum við að hugsa?“
Ása bendir á að nágrannalönd okkar taki nú sífellt stærri skref í þá átt að takmarka símanotkun í skólum og aðgengi barna að samfélagsmiðlum. Til dæmis vinnur norska ríkisstjórnin að frumvarpi um að hækka lágmarksaldur barna til að nota samfélagsmiðla úr 13 árum í 15 ár og leggja skyldu á samfélagsmiðlafyrirtæki til að framkvæma raunhæfa aldursstaðfestingu. Stjórnvöld í Danmörku vinni einnig að aldurstakmarki upp í 15 ár.
Grein hennar í heild má lesa hér.