

Dætur hennar, Abbie og Ffion, stíga fram og vekja athygli á sögu móður sinnar til að vara aðra við. Þær segja að móðir þeirra hafi borgað 3200 krónur (eða 20 pund) fyrir sprautuna, sem innihélt virka efnið semaglútíð. Semaglútíð er sykursýkislyf og tilheyrir flokki glúkagonlík-peptíð-1 (GLP-1) hliðstæðna. Lyfið líkir eftir náttúrulega hormóninu GLP-1 sem er losað úr þörmum eftir máltíðir og hefur margvísleg áhrif á stjórnun glúkósa og matarlyst.
Abbie og Ffion sögðu í samtali við ITV News að móðir þeirra hafi byrjað á sprautunum vegna lélegs sjálfsálits í kjölfar sambandsslita.
„Henni leið ekki vel með sig sjálfa. Hún vildi ekki fara út úr húsi og vildi bara líkjast sjálfri sér aftur. Hún vildi léttast og verða örugg á ný,“ sagði Abbie.
Karen hafði heyrt um að það væri hægt að fara í þyngdatapssprautumeðferð á snyrtistofu í heimabæ hennar, en heilbrigðisyfirvöld í Bretlandi (NHS) höfðu synjað henni um niðurgreiðslu á viðurkenndum þyngdartapslyfjum á borð við Ozempic og Mounjaro.
Karen fór nokkrum sinnum í sprautu á snyrtistofunni en eftir þá síðustu var hún sárkvalin. Hún var á gjörgæslu í tvo daga og var dætrum hennar fært þær erfiðu fréttir að hún myndi ekki lifa þetta af. Karen skilur eftir sig tvær dætur og fjögur barnabörn.
Lögreglan í Greater Manchester hefur handtekið einstaklinga í tengslum við málið. Breski heilbrigðis- og félagsmálaráðherrann, Wes Streeting, undirstrikaði mikilvægi þess að fólk leiti til löggilta heilbrigðisstarfsmanna þegar kemur að slíkum meðferðum.