

Andrés prins verður sviptur titli sínum og gert að flytja út úr Royal Lodge, glæsilegu setri í eigu krúnunnar á lóð sem tilheyrir Windsor-kastala. Þar hefur Andrés búið í áraraðir og notið lífsins. Gaus upp mikil reiði í Bretlandi á dögunum þegar greint var frá því að Andrés byggi í glæsihýsinu nánast ókeypis.
Greint var frá sviptingu Andrésar í yfirlýsingu frá Buckingham-höll nú kvöld.
Í yfirlýsingunni kemur fram að hér eftir muni Andrés verða kynntur opinberlega með eftirnöfnum sínum, Mountbatten Windsor, en prinstitillinn verði að víkja.
Ástæðan fyrir þessum vendingum eru tengsl Andrésar, fyrrverandi prins, við kynferðisafbrotamanninn Jeffrey Epstein. Um árabil hefur Andrés freistað þess að fjarlægja sig frá Epstein en þess í stað hefur hann fest sig enn frekar í lygavef varðandi tengslin.
Það voru meðal annars nýútkomnar endurminningar Virginiu Giuffre, sem sakaði Andrés um að hafa misnotað sig kynferðislega á táningsaldri, sem urðu til þess að hitna fór undir svarta sauði Windsor-fjölskyldunnar að nýju.
Guiffre lifði það ekki af að sjá bókina koma út en hún tók eigið líf í apríl á þessu ári, aðeins 41 árs gömul.