fbpx
Miðvikudagur 29.október 2025
Fréttir

Hildur tilkynnti hundapassara eftir bitárás á Valhúsahæð – „Ég þurfti að fara á læknavaktina og fá stífkrampasprautu“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 29. október 2025 14:00

Rétt er að taka fram að litli hundurinn á myndinni olli ekki áverkanum. Aðsent myndefni.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hildur Sif varð fyrir árás stórrar hundstíkur, sem er blanda af border collie og scheffer, á Valhúsahæðinni á Seltjarnarnesi í sumar. Maður var þar á ferð með fjóra lausa hunda, að sögn Hildar Sifjar, en áðurnefndur hundur réðst á smáhund hennar, af tegundinni pomeraninan. Í kjölfarið beit hann Hildi Sif. Atvikið átti sér stað þann 10. ágúst um ellefuleytið.

„Fjórir hundar komu hlaupandi að mér. Einn þeirra réðst á hundinn minn og þegar ég reyndi að verja hana beit hundurinn mig í handlegginn. Ég þurfti að fara á læknavaktina og fá stífkrampasprautu,“ segir Hildur Sif en lögregla var kölluð til vegna atviksins.

„Eigandinn var með alla hundana lausa og yfirgaf vettvang áður en lögreglan kom, ég var með minn í bandi. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hann er með marga hunda í lausagöngu á svæðinu, og hefur sami hundur ráðist á aðra hunda áður.“

Hildur segist hafa tilkynnt málið til Heilbrigðiseftirlitsins og MAST en ekki fengið viðbrögð. Hildur tekur fram að vitni hafi verið að atvikinu.

Umdeilt atvik á Geirsnefi

Maðurinn sem hér um ræðir starfar við hundapössun og segir Hildur Sif að tveir hundanna á vettvangi hafi verið í pössun og tveir í hans eigu. Hundapössun virðist vera vaxandi þjónustugrein hér á landi enda þurfa hundar mikla hreyfingu og margir hundaeigendur geta ekki uppfyllt þá þörf svo vel sé vegna t.d. vinnu. Viðrar maðurinn hunda bæði á Valhúsahæðinni og á Geirsnefi. DV greindi frá umræðum um störf mannsins í FB-hópnum Hundaspjallið í vikunni.

Þeim umræðum hefur nú verið eytt. Málshefjandi þar deildi á framgöngu hundapassarans og sagði:

„Þetta er strákur sem er oft með marga hunda í göngu á Geirsnefi. Get ekki myndbirt vegna persónuverndar en get gefið nánari upplýsingar í skilaboðum.

Við vorum tvö sem urðum vitni að virkilega ljótri framkomu við dýrin þegar hann var bókstaflega að TROÐA fullt af stórum hundum inn í alltof litinn bíl alveg heavy pirraður og hrópandi og hundarnir augljóslega skelkaðir við hann. Hann öskraði á þá, sem gerði hundana ennþá meira tens og endaði á að rífa í tvo hunda svo þeir vældu undan honum.

Þegar ég sagði honum að þetta væri alls ekki í lagi og að hann ráði augljóslega ekki við svona marga hunda og þurfi að ráða aðstoðarmann eða eitthvað – þá sagði hann mér að fokka mér 

Ég myndi aldrei setja hundana mína í hans umsjá“

Hundapassarinn steig þá sjálfur fram í umræðunum og hvatti manninn til að birta af sér umrætt myndefni því hann hefði ekkert að fela. Hann segist aldrei vera vondur við hundana sem hann er með í pössun. Hann segir hins vegar að óþægilegar aðstæður hafi skapast þar sem hann þurfti að taka á öllu sínu til að smala hundunum saman:

„Í dag lentum við í leiðinlegu atviki þegar óþægilegur maður með mörg andlitstattú hafði afskipti af mér og fór að taka mig upp á myndband. Við vorum að klára túrinn okkar og mér tókst erfiðlega að smala öllum inn í bíl. Við höfðum hitt tík á lóðarí rétt áður og 6 af mínum 7 voru rakkar þannig skiljanlega var það krefjandi verkefni. Ég hvet viðkomandi að deila myndefninu því ég hef ekkert að fela.“

„Ég hef unnið með hundum í 10 ár og ég er viss um að eigendur þessara hunda sem ég er sakaður um að beita ofbeldi myndu gefa mér bestu meðmæli enda sjá þeir hversu mikið hundarnir þeirra elska mig. Ég vil bæta því við að það fer mjög vel um hópinn í station bílnum mínum.“

Vinsæll hundapassari

Rétt er að halda því til haga að maðurinn nýtur almennt vinsælda og trausts sem hundapassari á meðal þeirra hundaeigenda sem eiga viðskipti við hann. Var það rauður þráður í gegnum þær umræður á Hundaspjallinu sem hér hefur verið vísað til, og var málshefjandi þar gagnrýndur af mörgum fyrir að leitast við að sverta orðspor hans út af atviki þar sem málshefjandinn hafi sjálfur ekki lesið rétt í aðstæður.

DV hefur án árangurs reynt að ná í hundapassarann vegna atviksins á Valhúsahæð í sumar. Liggja hjá honum skilaboð þar sem hann er beðinn um að útskýra atvikið. Svörum hans verð gerð skil ef þau berast.

Hildur Sif segir: „Hann hefur ekkert haft samband við mig eða sent afsökunarbeiðni.“

Fréttinni hefur verið breytt. Í fyrri útgáfu hennar sagði að Hildur hefði kært málið til lögreglu. Það er ekki rétt. Beðist er velvirðingar á þessu. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

„Pabbi, má ég innrétta bílskúrinn? Ég fékk ekki lán fyrir 60 fermetra íbúð. Ég er bara með 900.000 í mánaðarlaun“

„Pabbi, má ég innrétta bílskúrinn? Ég fékk ekki lán fyrir 60 fermetra íbúð. Ég er bara með 900.000 í mánaðarlaun“
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Þórdís Kolbrún sendir Miðflokknum pillu – „Eigingjarnt, einfeldnislegt og skammsýnt“

Þórdís Kolbrún sendir Miðflokknum pillu – „Eigingjarnt, einfeldnislegt og skammsýnt“
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum
Lést í Bláa lóninu
Fréttir
Í gær

Vilja að stemmt verði stigu við bílastæðabraskinu

Vilja að stemmt verði stigu við bílastæðabraskinu
Fréttir
Í gær

Veðurspáin versnað – Fólk hvatt til að fara fyrr heim

Veðurspáin versnað – Fólk hvatt til að fara fyrr heim
Fréttir
Í gær

Þungfært á Reykjanesbraut og ökumenn á vanbúnum bílum

Þungfært á Reykjanesbraut og ökumenn á vanbúnum bílum
Fréttir
Í gær

„Mikilvægt að dagur eins og þessi verði ekki að dyggðaskreytingu fyrir konur sem nú þegar eru komnar langt upp yfir glerþakið“

„Mikilvægt að dagur eins og þessi verði ekki að dyggðaskreytingu fyrir konur sem nú þegar eru komnar langt upp yfir glerþakið“