Mikil vandræðagangur hefur verið í umferðinni á suðvesturhorni landsins vegna ófærðar. Gul viðvörun hafði verið gefin út fyrir kvöldið í kvöld vegna mikillar snjókomu en hún hefur verið hækkuð upp í appelsínugula viðvörun þar sem nýjustu spár benda til að ofankoman verði enn meiri en áður stefndi í. Er fólk af þessu sökum hvatt til að leggja fyrr af stað heim.
Í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands segir að gefnar hafi verið út appelsínugular veðurviðvaranir vegna mikillar snjókomu og skafrennings á höfuðborgarsvæðinu, Faxaflóa og Suðurlandi síðar í dag.
Gera megi ráð fyrir talsverðum samgöngutruflunum og erfiðri færð, sérstaklega þegar líði á daginn og fram á kvöld.
Gul viðvörun er nú í gildi á öllum umræddum svæðum en appelsínugul viðvörun tekur gildi á Faxaflóa kl. 14, Suðurlandi kl. 16 og höfuðborgarsvæðinu kl. 17. Gilda appelsínugulu viðvaranirnar allar til miðnættis en þá taka aftur við gular viðvaranir sem gilda til klukkan 8 í fyrramálið.
Segir að lokum í tilkynningu Veðurstofunnar að fólk sé hvatt til að fylgjast vel með veðurspám, tryggja öryggi á ferðum og leggja fyrr af stað heim ef ferðast þurfi yfir Hellisheiði eða Reykjanesbraut þar sem snjókoman gæti aukist hratt síðdegis