
„Í niðurstöðu Héraðsdóms kemur berlega fram að vitnisburði hins ættleidda sonar er tekið sem heilögum sannleika en lítið horft til þess sem hinn svipti hefur um þessa hluti að segja,“ segir Örn Gunnlaugsson, fyrrverandi atvinnurekandi, í aðsendri grein í Morgunblaðinu á laugardag.
Örn gagnrýnir þar niðurstöðu Landsréttar og héraðsdóms sem úrskurðuðu að eldri maður skyldi sviptur fjárræði og gengu þar að kröfu sonar mannsins. DV greindi frá úrskurðunum í síðustu viku:
Í úrskurðunum kemur fram að það hafi verið einkasonur mannsins sem sótti málið og byggist niðurstaðan á því að maðurinn hafi greinst með heilabilun, sé með skert minni og hafa að auki háð glímu við Bakkus um talsvert skeið.
Þá kemur ennfremur fram í úrskurðunum að það hafi verið áhyggjur sonarins af úttektum af bankareikningi föðursins sem hafi gert það að verkum að hann hafi einhent sér í það að fá hann fjárræðissviptan en úttektirnar hófust eftir að ónafngreind kona fluttist inn til föðursins til að annast hans. Örn segir hins vegar að fjárræðissviptingin þjóni fjárhagslegum hagsmunum sonarins.
Örn fer hörðum orðum um niðurstöður héraðsdóms og Landsréttar í máli aldraða mannsins. Segir hann dómstólana hafa tekið orðum ættleidds sonar mannsins sem heilögum sannleika. Þess skal geta að Örn hefur persónuleg tengsl við fólkið sem í hlut á. Í úrskurðunum eru feðgarnir sagðir eiga í góðu sambandi og tali saman símleiðis daglega. Örn segir hins vegar að faðirinn hafi lokað á samskipti við soninn eftir fjárræðissviptinguna. Hann segir að með fjárræðissviptingunni hafi gamli maðurinn verið sviptur reisn sinni:
„Í þessu tilviki sem hér um ræðir kynntist umræddur karl konu sem er fimm árum yngri í gegnum félagsstarf fyrir nokkrum árum og tókst með þeim góður vinskapur. Þótt þau verji miklum tíma saman og njóti þannig hvort annars þá halda þau hvort sitt heimili og hafa verið með aðskilinn fjárhag. Um leið og hinn ættleiddi sonur komst að félagsskap þeirra hóf hann aðgerðir til að eyðileggja þann félagsskap. Hefur hann reynt eftir fremsta megni að ráðskast með karlinn og notað hvert það tækifæri sem hann hefur haft til að hreyta ónotum í vinkonu hans og niðurlægja þau eftir fremsta megni. Ljóst má vera að fyrir honum vakir það eitt að verja arfinn sem honum hlotnast þegar karlinn kveður þessa jarðvist. Enda hefur hann ítrekað skipt sér af því þegar karlinn hefur veitt sér eitthvað, þá sé það bruðl og óþarfi. Nú hefur hinum ættleidda syni tekist að koma því til leiðar að umræddur karl hefur verið sviptur fjárræði og þar með reisn sinni sem mun hraða enn meira öldrun hans, sem verður þá til þess að hinn ættleiddi sonur kemst fyrr yfir arfinn sem eftir er. Hinum svipta er nú ætlað að éta úr nefinu á sér þar til sýslumanni hefur þóknast að skipa viðkomandi fjárhaldsmann en slíkt getur tekið mánuði. Öllum má ljóst vera að hinn svipti situr eftir sár og reiður og hefur engan áhuga á nokkru samneyti við hinn ættleidda son og hefur lokað á samskipti við hann.“
Í úrskurðunum kemur fram að gamli maðurinn sagðist vera fullfær um að sjá um sín mál sjáfur með aðstoð nýju konunnar sinnar og að sonur hans hafi ekki aðstoðað sig við nokkurn hlut. Hann fór hins vegar rangt með aldur sinn fyrir dómi, vissi ekki hvaða mánuður né ár var, mundi ekki símanúmer sitt né hver væri forseti Íslands eða forsætisráðherra. Þá sagðist hann vera í viðskiptum við Búnaðarbankann, sem ekki er starfandi lengur, og hafði ekki hugmynd um hversu há framfærsla hans frá Tryggingastofnun væri á mánuði.
Örn segir hins vegar í grein sinni: „Þegar maki hins svipta lést fyrir rúmum áratug greiddi hinn svipti ættleiddum syni sínum út nánast allt sitt sparifé og sinn hlut í frístundahúsi sem fyrirframgreiddan arf vegna mikils þrýstings frá þessum skylduerfingja. Lítil sem engin samskipti hafa verið milli aðila að undanskilinni ásælni skylduerfingjans í eignir hins svipta.“
Hann segir dómara hafa látið hafa sig að ginningarfíflum í málinu og hvetur til þess að erfðalögum verði breytt á þann hátt að arfleiðendur geti gert niðja sína arflausa. Í þessu tilviki þjóni svipting fjárræðis fjárhagslegum hagsmunum arfþegans:
„Það er dapurt til þess að hugsa að þeir sem fjárhagslega hagsmuni hafa af því að svipta arfleiðanda fjárhagslegu sjálfstæði sínu og þar með reisn sinni geti misnotað dómstóla landsins með þeim hætti sem hér hefur verið vikið að. Lítið er í þá dómara spunnið sem láta hafa sig að slíkum ginningarfíflum. Þá er rétt að velta því fyrir sér hvort ekki sé ástæða til að breyta erfðalögum á þann hátt að arfleiðendur geti gert niðja sína arflausa telji þeir framkomu niðjanna við sig ekki til þess fallna að þeir eigi skilinn arf. Þetta mál má leggja að jöfnu við hrægammana sem leggjast á bráð sína þegar hún liggur varnarlaus. Í þessu dæmi hefur gammurinn aldrei sýnt bráð sinni nokkra samkennd.“