

Í tilkynningu frá Landsbjörg kemur fram að mæðgurnar hafi lagt leið sína inn í Landmannalaugar á laugardag í skínandi veðri og alauðu, en þegar þær vöknuðu í gærmorgun hafði umhverfið breyst talsvert, allt á kafi í snjó og ómögulegt að komast burt.
Björgunarsveitirnar fóru inn í Landmannalaugar á tveimur bílum til að aðstoða ferðamennina til byggða. Um tíma leit út fyrir að skilja þyrfti húsbílinn eftir, en svo reyndist unnt að draga hann niður að Sigölduvirkjun, þar sem færðin var orðin skapleg.
Á Frostastaðahálsi keyrðu svo björgunarsveitir fram á annan ferðalang á jeppa sem hafði fest sig í snjó og var hann einnig aðstoðaður.
Þegar komið var til baka niður í Hrauneyjar, mættu björgunarsveitir nokkrum öðrum ferðalöngum á jepplingi sem ætluðu inn í Landmannalaugar, en var gert ljóst að þangað kæmust þau ekki á þeim bíl og sneru því við.
Ferðalangurinn á húsbílum gat svo haldið för sinni áfram þaðan.
Meðfylgjandi er ljósmynd þegar björgunarsveitarfólk dregur upp bílinn í Landmannalaugum.