

Rúmlega þrjár af hverjum tíu konum telja það á móti rösklega sex af hverjum tíu körlum. Fólk undir þrítugu telur frekar en eldra fólk að fullu jafnrétti kynjanna sé náð. Þá er þess getið í niðurstöðunum að fólk með hærri fjölskyldutekjur telji frekar að fullu jafnrétti sé náð en tekjulægra fólk.
Þau sem kysu Framsóknarflokkinn eða Miðflokkinn eru helst sammála því að fullu jafnrétti kynjanna sé náð en síst þau sem kysu Flokk fólksins eða aðra flokka en þá sem eiga sæti á þingi.
Þegar litið er á stuðning við einstaka flokka sést að 82% kjósenda Framsóknarflokksins og Miðflokksins telji að fullt jafnrétti ríki á milli karla og kvenna í íslensku samfélagi.
60% kjósenda Sjálfstæðisflokksins eru þeirrar skoðunar og 54% kjósenda Viðreisnar. 29% kjósenda Samfylkingar telja að fullt jafnrétti ríki og 22% kjósenda Flokks fólksins.
Þá vekur athygli að af þeim sem telja ekki að fullu jafnrétti sé náð milli karla og kvenna telji langflestir að það halli á konur, eða rúmlega 87% á móti tæplega 13% sem telja að það halli á karla.
Könnunin var gerð dagana 17. til 22. október síðastliðinn en um var að ræða netkönnun. Heildarúrtaksstærð var 1.688 og þátttökuhlutfall var 43,4%. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.