Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) hefur birt mánaðarskýrslu fyrir október 2025 og hefur hún vakið nokkra athygli. Þar kemur fram að á bilinu 10.500-16.400 íbúðir eru ekki nýttar til varanlegrar búsetu hér á landi, að fasteignamarkaðurinn sé orðinn að kaupendamarkaði, að um 28 prósent fullorðinna einstaklinga séu á leigumarkaði og að það taki á einstakling um 11 ár, og einsætt foreldri um 18 ár, að safna fyrir útborgun á lítilli íbúð á höfuðborgarsvæðinu.
Einnig kemur fram að nýjum íbúðum hafi fjölgað hratt á markaði en að sala þeirra sé á sama tíma dræm. Jónas Atli Gunnarsson, hagfræðingur hjá HMS, segir í samtali við Vísi að verktakar kjósi nú frekar að bíða með sölu íbúða en að lækka verð þeirra, en þetta bendi til þess að byggingargeirinn hafi nóg á milli handanna. Jónas Atli tók fram að HMS hafi reynt að greina hvað valdi því að nýjar íbúðir séu ekki að seljast „og við höfum komist að því að þær eru dýrar“. Á sama tíma sé kaupgeta heimila minni en áður.