Andlitsgrímurnar sem notaðar voru í covid-19 heimsfaraldrinum komu að góðum notum þá en núna eru þær að koma í bakið á okkur. Grímurnar eru orðnar að stóru umhverfisvandamáli.
Greint er frá þessu í indverska miðlinum First Post.
Flestir muna eftir hinum bláum andlitsgrímum sem fólk bar í covid faraldrinum árin 2020 til 2021. Vissulega voru til aðrar gerðir af andlitsgrímum en þessar voru hinar langvinsælustu. Má segja að grímurnar hafi orðið nokkurs konar táknmynd faraldursins.
Eru þær enn notaðar, meðal annars af heilbrigðisstarfsfólki á sjúkrastofnunum og hjá fólki sem er smithrætt eða viðkvæmt í öndunarfærunum. Einkum hafa þessar grímur verið vinsælar í Asíu, þar sem flestir jarðarbúar búa.
Þó að þessar grímur hafi hjálpað mikið til að berjast við faraldurinn og hafa bjargað mannslífum þá hafa þær skapað annað vandamál í dag. Það er stórt umhverfisslys.
Grímurnar eru vitaskuld einnota og því notaði hver einstaklingur margar slíkar grímur. Jafn vel nokkrar á hverjum degi. Þessum grímum var síðan einfaldlega hent í ruslið, eða sem verra er, eitthvað út í buskann.
Nýlegar rannsóknir sína að þessir milljarðar andlitsgríma eru nú að brotna niður í örplast og önnur spilliefni. Þetta ógnar bæði heilsu manna, dýra og vistkerfum.
Einnota andlitsgrímur hafa verið til í áratugi en algjör breyting varð í faraldrinum. Eftirspurnin var gríðarleg og framleiðslan þurfti að anna henni. Frá mars árið 2020 til október sama ár jókst framleiðslan um 9000 prósent.
Samkvæmt áætlunum Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, þurftu aðeins heilbrigðisstarfsmenn 89 grímur á hverjum einasta degi. Notkun almennings var miklu meiri. Um tíma voru 129 milljarðar gríma framleiddar í hverjum mánuði.
Ýmis konar plastefni eru notuð til að framleiða grímur. Það er pólíprópílin, pólíester, pólíkarbonat og fleiri efni sem nýtast vel við síun. Grímurnar eru ódýrar, auðfáanlegar og virka vel gegn ögnum í lofti. Þess vegna virkuðu þær svona vel í faraldrinum.
En eftir að grímunum var hent voru fæst ríki með áætlanir um hvernig ætti að endurvinna þær, ef það var yfir höfuð hægt. Þess í stað hefur meirihluti þeirra endað urðaður í landfyllingum eða úti í guðsgrænni náttúrunni. Algengt var að fólk einfaldlega kastaði þeim frá sér, á bílastæðum, ströndum, gangstéttum og víðar.
Eins og gefur að skilja var þetta gríðarlega mikið magn af auka plastrusli. Á hápunkti faraldursins má gera ráð fyrir að 3,4 milljarðar gríma hafi verið hent á hverjum degi.
Grímurnar brotna ekki hratt niður heldur liðast í sundur í sífellt smærri agnir. Ferlið getur tekið áratugi. Allar andlitsgrímur gefa frá sér örplast með tímanum en rannsóknir sína að þær grímur sem voru vinsælastar í faraldrinum gefa þrisvar eða fjórum sinnum meira frá sér en aðrar grímur.
Agnirnar eru misstórar, allt frá 10 míkrómetrum í ummál til 2000, en örplastið úr þessum grímum er yfirleitt undir 100 míkrómetrum. Þetta eru nægilega litlar agnir til þess að komast inn í sjávarlífverur og þaðan komast þær upp fæðupíramídann og inn í mannfólk. Einnig hafa þær fundist í drykkjarvatni.
En þar með er ekki öll sagan sögð. Vísindamenn hafa einnig komist að því að grímurnar gefa frá sér spilliefni sem kallast bisfenól B. Þetta er efni sem virkar eins og estrógen og truflar innkirtlastarfsemi líkamans og hormónastarfsemi.
Efni á borð við þetta geta valdið ýmsu heilsutjóni. Meðal annars vissum tegundum krabbameins, taugasjúkdómum, þroskaskerðingu og nýrnabilun.
Samkvæmt rannsóknum losuðu grímurnar í faraldrinum á bilinu 128 til 214 kílógrömm af bisfenóli út í náttúruna. Segja vísindamenn þetta vera „tifandi tímasprengju,“ bæði gagnvart mönnum og dýrum.
„Þessar rannsóknir sýna að við þurfum að hugleiða hvernig við framleiðum andlitsgrímur, notum þær og losum okkur við þær,“ sagði Anna Bogush, vísindamaður við háskólann í Coventry.