Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa hefur komist að þeirri niðurstöðu að viðskiptavinur ónefndrar bílaleigu eigi rétt á endurgreiðslu kostnaðar sem hann var rukkaður fyrir eftir að hafa dælt rangri eldsneytistegund á bifreið sem hann var með á leigu.
Um virðist vera að ræða karlmann. Hann leigði bifreiðina frá 18. desember 2024 til 3. janúar 2025 og greiddi fyrir 2.188 evrur (um 315.000 íslenskar krónur). Þann 20. desember dældi maðurinn dísel eldsneyti á bifreiðina í stað bensíns og varð bifreiðin óökuhæf. Benti bílaleigan manninum á að óska eftir vegaaðstoð frá leigunni en fyrir hana greiddi maðurinn 101.300 krónur en í aðstoðinni fólst að dæla eldsneytinu upp úr bifreiðinni. Þrátt fyrir að það væri gert tókst ekki að koma bifreiðinni í gang. Manninum var þá boðið að fá nýja bifreið.
Þá var manninum gert að reiða af hendi tryggingargjald vegna bilunar í bifreiðinni að fjárhæð 600.000 krónur en endurgreiðsla þess myndi ráðast af endanlegu mati á tjóni bílaleigunnar. Þá greiddi maðurinn 317.000 krónur fyrir flutning á hinni biluðu bifreið á starfsstöð bílaleigunnar og síðan flutning á annarri leigubifreið til baka. Í kjölfar þess að bifreiðin var skoðuð og lagfærð hjá bílaleigunni voru manninum endurgreiddar alls 3.799 evrur (um 545.000 íslenskar krónur) af tryggingargjaldinu en samkvæmt útgefnum reikningi bílaleigunnar var endanleg greiðslukrafa á hendur manninum, vegna viðgerða, 421 evra( um 60.300 íslenskar krónur. Krafðist maðurinn hins vegar endurgreiðslu á greiddum kostnaði vegna afdælingar eldsneytis og flutnings leigubifreiðanna og viðgerðarinnar. Þá krafðist hann skaðabóta eða endurgreiðslu á leigugjaldi á þeim grundvelli að bifreiðin hefði verið vanbúin vegna þess að dekkin hefðu verið illa skrúfuð á.
Maðurinn byggði kröfur sínar ekki síst á því að honum hefði ekki verið veittar neinar upplýsingar um hvers konar eldsneyti bifreiðin gengi fyrir. Engar merkingar um það hefðu verið á eldsneytislokinu. Í handbók bifreiðarinnar, sem var á frönsku, hafi á tveimur stöðum verið fjallað um viðhald á dísel bílvél. Hafi hann því dregið þá ályktun að bifreiðin gengi fyrir dísel eldsneyti.
Maðurinn sagði að eftir að hann var rukkaður um áðurnefnd gjöld hafi hann bent bílaleigunni á að ekki hafi verið um mistök af hans hálfu að ræða heldur skort á upplýsingum frá fyrirtækinu sjálfu, um hvernig eldsneyti ætti að setja á bifreiðina. Til að sýna fram á það hafi hann tekið ljósmyndir af bifreiðinni en bílaleigan hafi sagt hann hafa átt að óska eftir upplýsingum um hvers konar eldsneyti mætti dæla á bifreiðina. Sagði maðurinn einnig að starfsmenn vegaaðstoðarinnar hafi bent honum á að öll dekk bifreiðarinnar hafi verið illa skrúfuð á hana. Hafi bifreiðin því verið vanbúin til aksturs og bílaleigan því brugðist skyldum sínum með afhendingu hennar í þessu ástandi. Fór hann því fram á að auk endurgreiðslu áðunefnds kostnaðar fengi hann greiddar skaðabætur eða leigugjaldið endurgreitt.
Bílaleigan vildi hins vegar meina að maðurinn bæri alfarið ábyrgð á tjóninu. Hann hefði dælt vitlausu eldsneyti á bifreiðina og ætti því ekki rétt á endurgreiðslu en hefði í raun fengið ígildi hennar þar sem að hann hefði fengið dýrari bifreið í stað þeirrar sem bilaði.
Máli sínu til stuðnings lagði maðurinn fyrir nefndina ljósmyndir, myndbönd og önnur gögn. Óskaði kærunefnd vöru- og þjónustukaupa þá eftir því að bílaleigan myndi leggja fram gögn sem sýndu fram á að manninum hefði verið veittar upplýsingar um eldsneytisgjafa bifreiðarinnar. Segir nefndin að bílaleigan hafi lagt fram ljósmynd af eldsneytisloki bifreiðar þar sem fram komi hver eldsneytisgjafi hennar sé sem og skjáskot af vefsíðu sinni sem sýni almennar upplýsingar um hina leigðu bifreið. Nefndin segir hins vegar í niðurstöðu sinni að þegar sú ljósmynd sem maðurinn lagði fram með kvörtun sinni sé borin saman við þá sem bílaleigan sendi nefndinni þyki ljóst að ekki sé um sömu bifreið að ræða enda sé litur bifreiðanna ekki sá sami. Skjáskotið var hins vegar af umræddri bifreið en nefndin segir að þar komi ekkert fram um hvaða eldsneyti eigi að fara á hana. Það standi aðeins að bifreiðin sé „hybrid“.
Það er því niðurstaða nefndarinnar að bílaleigan hafi ekki sýnt fram á að maðurinn hafi verið upplýstur um tegund eldsneytisgjafa bifreiðarinnar enda hafi þær upplýsingar ekki verið að finna í samningi á milli aðila, bifreiðinni sjálfri eða á vefsíðu bílaleigunnar. Verði bílaleigan að endurgreiða manninum allan kostnaðinn sem hann var rukkaður um vegna málsins, 418.300 krónur, vegna afdælingar og flutninga á bifreiðinni og þeirri sem hann fékk í staðinn, og 421 evru, vegna viðgerðarkostnaðar.
Kröfu mannsins um endurgreiðslu á leigugjaldi eða skaðabætur, vegna þess að dekk bifreiðarinnar hefðu verið illa skrúfuð á, var hins vegar hafnað þar sem maðurinn lagði engin gögn fram til stuðnings þeirri fullyrðingu.