Bandaríski ferðahandbókahöfundurinn og sjónvarpsmaðurinn Rick Steves varar við fjórum hættum sem steðjar að ferðamönnum á Íslandi. Hann segir að frí á Íslandi geti snögglega breyst úr ævintýri í harm ef fólk sé ekki meðvitað um hætturnar.
Steves hefur lengi fjallað um ferðamál, haldið úti sjónvarpsþáttum og skrifað bækur. Meðal annars tvær bækur um Ísland. Þá heldur hann úti vinsælu ferðabloggi. Á blogginu varar hann við fjórum hættum sem steðjar að ferðamönnum, en hann bendir á að um 25 ferðamenn látist á Íslandi á hverju ári.
Einkum nefnir Steves öldurnar á Suðurlandi, svo sem við Reynisfjöru, þar sem margir ferðamenn hafa látist á undanförnum árum. Steves bendir á að það geti verið freistandi að ganga eftir ströndinni en öldurnar geti auðveldlega hrifsað fólk á haf út og ekki sleppt því.
Steves bendir á að víða finnist sjóðandi heitar tjarnir og pollar á jarðhitasvæðum á Íslandi. Slík svæði eru oft vinsæl hjá ferðamönnum, ekki síst þar sem strókarnir gusast upp úr jörðinni. Auðvelt er hins vegar að brenna sig á þessum stöðum þar sem vatnið getur náð allt að 100 gráðu hita. Gæsla sé lítil sem engin á þessum stöðum og merkingarnar oft ekki nema í meðallagi góðar.
Ísland er stórt en fámennt og vegakerfið því víða ekki eins og best verður á kosið. Ofan á þetta bætist veðurfarið sem er síbreytilegt og getur verið válynt. Steves bendir á að ferðamenn sem eru vanir að keyra á þurrum vegum í heimalöndum sínum þurfi að vera sérstaklega varkárir á íslensku vegunum. Þá getur snjór og hálka umlukið vegina á stuttum tíma. Nauðsynlegt sé að fylgjast vel með á safetravel.is hvernig færð veganna sé.
Algengt er að ferðamenn séu ekki nógu vel búnir þegar þeir halda út í langar göngur í íslenskri náttúru. Jafn vel aðeins í strigaskóm, á svæðum þar sem farsímasamband er stopult og landslagið erfitt yfirferðar. Fjöll og jöklar eru sérstaklega hættuleg svæði yfirferðar, gjótur og sprungur geta leynst undir fótum fólks án þess að það viti af því.