Fréttamaðurinn þjóðþekkti Bogi Ágústsson er alls ekki sestur í helgan stein þótt hann sé hættur fréttalestri á RÚV. Bogi greinir frá því á Facebook-síðu sinni að hann vinni nú, ásamt samstarfsmanni sínum á RÚV til margra ára Karli Sigtryggssyni, að nýrri þáttaröð sem sýnd verður á miðlum RÚV á næsta ári. Í þáttunum verður í senn bæði horft til fortíðar og samtíðarinnar en viðfangsefnið er ranghugmyndir Íslendinga um sögu Íslands.
Bogi segir í færslunni að í síðasta mánuði hafi hann dvalið í Kaupmannahöfn við grúsk á söfnum. Hann hafi einnig nýtt tímann, ásamt Karli, til að ræða við danska og sænska fræðimenn til undirbúnings fyrir þættina sem verði í sjónvarps-, útvarps- og hlaðvarpsformi á miðlum RÚV á næsta ári. Bogi gefur viðfangsefnið ekki upp í færslunni en lætur fylgja með í athugasemd tengil sem hann segir að vísi á efni þáttanna.
Tengillinn vísar á umfjöllun sem hann vann sjálfur og var birt á vef RÚV í febrúar á síðasta ári. Umfjöllunin hefur yfirskriftina:
„Ranghugmyndir Íslendinga um eigin sögu.“
Í upphafi umfjöllunarinnar segir:
„Lífseig söguskoðun Íslendinga um forna gullöld, hnignun og auðmýkingarskeið heyrist enn þó að sagnfræðingar hafi fyrir löngu bent á að sagan sé miklu flóknari.“
Í umfjölluninni er síðan vitnað í rannsóknir og rætt við ýmsa sagnfræðinga sem hafa einmitt sýnt fram á að þessi einfaldaða mynd af Íslandssögunni, sem hefur löngum verið varpað fram í opinberri umræðu, stenst ekki skoðun. Minnt er einnig á í umfjölluninni að sagnfræðingar hafi í rannsóknum sínum fært sterk rök fyrir því að á öldum áður hafði það verið íslenska yfirstéttin sem hafi miklu frekar kúgað alþýðuna heldur en Danir.
Í ljósi þess hversu lífseig sú söguskoðun, sem ekki samræmist niðurstöðum rannsókna á Íslandssögunni, hefur verið má velta því fyrir sér hvort það sé ekki full þörf á þessum þáttum Boga og Karls.