„Stýrivextir eru háir, bankavextir enn hærri, og vaxtastefna Seðlabankans hefur lítil sem engin áhrif á stóran hluta húsnæðislána vegna verðtryggingar. Þetta er staða sem heimilin hafa þurfta að þola – en hún er ekki óbreytanleg. Það er til einföld aðgerð sem gæti lækkað vexti á Íslandi hratt og örugglega: að afnema verðtryggð húsnæðislán með lögum,“ segir hann.
Vilhjálmur segir að vextir myndu lækka af þeirri einföldu ástæðu að greiðslugeta heimila er takmörkuð.
„Ef öll húsnæðislán væru óverðtryggð, væri ógerlegt fyrir bankana að halda vöxtum í 8–10% án þess að stór hluti heimila lenti í greiðslufalli. Markaðslögmálin myndu því neyða fjármálakerfið til að lækka vexti – ekki af góðmennsku, heldur einfaldlega vegna þess að enginn gæti greitt slíka vexti til lengdar,“ segir hann.
Vilhjálmur segir að staðan í dag sé þannig að verðtryggingin verji bankana fyrir þessari hættu. Verðtryggingin haldi afborgunum lágum til skamms tíma á kostnað framtíðarinnar og tryggi að bankarnir geti rukkað háa raunvexti án þess að greiðslufall yrði samstundis.
„Þannig hefur hún í áratugi verið eins konar „öryggisbelti“ fyrir fjármálakerfið – og hengja fyrir lántakendur. Verðtrygging heldur vöxtum háum og drepur áhrif peningastefnunnar!“
Vilhjálmur segir að verðtryggð lán fjarlægi þann þrýsting sem annars myndi neyða bankana til að bjóða lægri vexti.
„En jafn alvarlegt er hitt: Verðtryggingin gerir stýritæki Seðlabankans nánast gagnslaust. Þegar stór hluti húsnæðislána er verðtryggður hafa vaxtabreytingar Seðlabankans lítil sem engin áhrif á greiðslubyrði heimilanna til skemmri tíma. Það þýðir að þegar Seðlabankinn hækkar vexti til að hemja verðbólgu, nær hann ekki inn í stærsta útgjaldalið heimilanna – húsnæðislánið. Peningastefnan missir þannig megintilgang sinn.“
Segir Vilhjálmur að ef verðtryggingin væri bönnuð myndi greiðslubyrði lána bregðast strax við vaxtabreytingum. Þá fyrst myndu stýrivextir Seðlabankans verða að raunverulegu stýritæki eins og í öðrum löndum.
„Það er mikilvægt að átta sig á því að verðtrygging er ekki náttúrulögmál. Hún er afurð pólitískra ákvarðana frá sjöunda áratugnum. Sama valdið og setti hana inn í kerfið getur tekið hana út,“ segir hann.
Hann segir að ef stjórnvöld vildu raunverulega verja heimilin og lækka vexti strax þá gætu þau bannað verðtryggð húsnæðislán með skýrum tímamörkum og aðlögunaráætlun. Hann segir viðbúið að bankar og lífeyrissjóðir myndu kvarta en markaðurinn myndi aðlagast.
„Við höfum prófað vaxtahækkanir, vaxtalækkanir, bindiskyldu og ótal úrræði – en við höfum aldrei ráðist að rót vandans. Verðtryggingin er grunnstoð hávaxta og gagnslausrar peningastefnu á Íslandi. Ef hún hverfur, hverfur líka möguleikinn á að halda vöxtum ósanngjarnt háum til lengdar – og Seðlabankinn fengi loksins stýritæki sem virkar. Einföld lagabreyting – bann við verðtryggðum húsnæðislánum – gæti fært íslenskum heimilum bæði lægri vexti og raunverulega virkni peningastefnunnar innan örfárra mánaða,“ segir Vilhjálmur og bætir við að lokum:
„Spurningin er ekki hvort þetta sé hægt – heldur hvort stjórnvöld hafi kjark til að gera það.“