Það er mat Haraldar Ólafssonar, prófessors í veðurfræði við Háskóla Íslands, að litlar breytingar séu á spám um veðrið um verslunarmannahelgina, en horfur fyrir Norðurland hafi heldur versnað.
Hann segir að vætusamt verði sunnan- og vestanlands. „Það lítur út fyrir vætusamt veður um allt sunnan- og vestanvert landið um helgina. En líklega mun rigna líka öðru hverju Norðaustanlands, sérstaklega á laugardaginn.“
Segir hann að hvassast verði og mesti vindur sunnan- og vestanlands aðfaranótt laugardagsins.
Haraldur segir að hiti sunnan- og vestanlands verði að jafnaði undir 15 stigum. Hlýjast verður Norðaustanlands, 15-20 stig.
Hins vegar verður víða næturkuldi, nokkuð sem ferðalangar ættu að hafa í huga og búa sig undir.