Þingkona Demókrata, Alexandria Ocasio-Cortez, kveikti duglega í internetinu með umdeildu tísti um Donald Trump um helgina. Í umræðum um afhjúpun Epstein-skjalanna sagði Ocasio-Cortez að það ætti ekki að koma á óvart að babb væri komið í bátinn varðandi það að varpa hulunni af skjölunum í ljósi þess að „nauðgari“ hefði verið kosinn í Hvíta húsið.
Wow who would have thought that electing a rapist would have complicated the release of the Epstein Files?
— Alexandria Ocasio-Cortez (@AOC) July 11, 2025
Ýjaði þingkonan þar að niðurstöðu í einkamáli rithöfundarins E. Jean Carroll árið 2023 gegn Trump en hún kærði hann fyrir kynferðisbrot og nauðgun. Trump var fundinn sekur um kynferðisbrotið en ekki þótti sannað að hann hefði nauðgað Carroll. Var Trump dæmdur til þess að greiða Carroll 5 milljónir í skaðabætur, meðal annars vegna ærumeiðinga sem hann lét falla í hennar garð á meðan málarekstrinum stóð.
Tíst Ocasio-Cortez hleypti illu blóði í stuðningsfólk Bandaríkjaforseta.
„Þetta eru meiðyrði,“ sagði áhrifavaldurinn og samsæriskenningasmiðurinn Laura Loomey sem er náin forsetanum. „Forsetinn ætti að kæra þingkonuna og knýja hana í gjaldþrot,“ sagði lögfræðingurinn Phil Holloway.
Hvorki Hvíta húsið né Trump sjálfur hafa brugðist við færslu Ocasio-Cortez en ætla má að þess sé ekki langt að bíða enda litlir kærleikar meðal þeirra.
Trump hefur áður farið í mál vegna svipaðra ummæla en það var gegn ABC-sjónvarpstöðinni og þáttastjórnandanum George Stephanopoulos. Hinn síðarnefndi lét þau orð falla í viðtali að Trump væri nauðgari. Málinu lauk með sátt en sjónvarpstöðin og Stephanopoulos samþykktu að greiða 15 milljónir bandaríkja dala í sekt sem og lögfræðikostnað upp á 1 milljón bandaríkjadala.