Karlmaður um fertugt er alvarlega slasaður eftir að hafa orðið fyrir hnífsstungu á bifreiðastæði við Mjóddina í Reykjavík í gærkvöld.
Tilkynning um málið barst lögreglu kl. 23.08 og hélt hún þegar á staðinn og fann þar brotaþola illa á sig kominn. Karlmaður á þrítugsaldri er grunaður um verknaðinn og var hann handtekinn nærri vettvangi. Hinn slasaði var fluttur á slysadeild og er ástand hans alvarlegt líkt og áður sagði.
Rannsókn málsins er á frumstigi og ekki er hægt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu, eins og segir í tilkynningu lögreglunnar.