Fastus heilsa, heilbrigðisdeild Fastus, vann nýverið stærsta sjúkrabílaútboð sem haldið hefur verið á Íslandi. Boðnir voru út 25 sjúkrabílar, þar af átta svokallaðir kassabílar (box body), sem eru nýjung á Íslandi. Hingað til hafa einungis verið notaðir van-gerðir sjúkrabíla, en kassabílarnir bjóða upp á rúmbetri vinnuaðstöðu og auðvelda umönnun sjúklinga. Í útboðinu var einnig ákvæði um mögulega viðbót upp á allt að 25 bíla, sem gæti þýtt samtals 50 nýja sjúkrabíla.
Í tilkynningu kemur fram að Fastus vann útboðið í samstarfi við bílaumboðið Öskju og BAUS AT. Askja er umboðsaðili Mercedes-Benz á Íslandi en sjúkrabílarnir eru allir af gerðinni Mercedes-Benz Sprinter. BAUS AT sér um breytingar á bílunum.
,,Tilboð okkar var metið hagkvæmast og hlaut hæstu einkunn, bæði fyrir van- og kassabíla,“ segir Herdís Þórisdóttir, deildarstjóri Fastus heilsu.
,,Þetta er stór áfangi fyrir Fastus og frábær viðurkenning á faglegri þekkingu og reynslu okkar í bransanum. Við hlökkum til að taka þátt í áframhaldandi uppbyggingu sjúkraflutninga á Íslandi“.
Fjársýsla ríkisins hafði umsjón með útboðinu, sem auglýst hafi verið á öllu evrópska efnahagssvæðinu. Sjúkrabílarnir verða afhentir Rauða krossinum á næstu mánuðum. Rauði krossinn heldur utan um sjúkrabílaflota landsins samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands.