Áður fyrr gerðu Úkraínumenn grín að írönsku Shahed drónunum og kölluðu þá „skellinöðrur“ vegna vélarhljóðs þeirra. Þeir voru ekki margir og Úkraínumenn fundu fljótlega út hvernig var auðvelt að skjóta þá niður.
En eitt og annað hefur breyst.
Þeim hefur fjölgað – Þegar Rússar fengu fyrstu írönsku drónana 2022 voru þeir ekki margir. En Rússar brugðust við þessu með því að gera eitt sem þeir eru góðir í, þeir juku framleiðsluna. 2023 byrjuðu þeir að framleiða Shahed-dróna undir nafninu Geran-2. Úkraínska leyniþjónustan segir að nú geti Rússar framleitt 170-190 slíka dróna á sólarhring. Euromaidan Press skýrir frá þessu.
Merki um þessa auknu framleiðslu má sjá í tíðum loftárásum á Úkraínu. Þær verða sífellt umfangsmeiri og í maí og júní slógu Rússar fyrri met varðandi hversu marga dróna og flugskeyti þeir notuðu í einni árás. Þegar mest var, var 499 drónum og flugskeytum skotið á Úkraínu á einni nóttu. Til samanburðar má nefna að allan maí 2023 skutu Rússar 560 drónum og flugskeytum á Úkraínu.
Nýr hreyfill og nýr sprengioddur – Ein stærsta breytingin á drónunum er að þeir eru nú knúnir með þotuhreyflum. Kyiv Independent segir að mesti hraði slíkra dróna, sem mælst hefur, sé 477 km/klst. Fyrir ári síðan var hámarkshraðinn 200 km/klst. Þetta gerir auðvitað að verkum að erfiðara er að skjóta þá niður.
Þetta þýðir að fleiri drónar sleppa í gegnum varnir Úkraínumanna. Þess utan geta drónarnir nú borið stærri sprengiodda, eða tvöfalt meira en áður. Þeir geta einnig flogið hærra, um 2 km yfir jörðu, og það gerir loftvarnarsveitunum erfiðara fyrir við að skjóta þá niður.
Fljúga lágt – Það eru ekki allir drónar knúnir þotuhreyflum. Hreyflarnir eru dýrir og erfitt fyrir Rússa að verða sér úti um íhluti vegna refsiaðgerða Vesturlanda.
Þeir drónar, sem ekki eru með þotuhreyfil, eru látnir fljúga lágt sem gerir ratsjám erfitt fyrir að sjá þá sem aftur þýðir að loftvarnarsveitirnar hafa skemmri tíma til að skjóta þá niður.
Falskir drónar í fararbroddi – Eitt af því sem einkennir flesta dróna er að þeir fljúga um og bíða eftir að skotmarkið sé valið. En það er ekki hægt með Shahed-dróna. Flugleiðir þeirra eru gerðar fyrir fram en nú er farið að bera á drónum, með myndavélar, sem er stýrt frá Rússlandi.
Þetta þýðir að það er í auknum mæli hægt að nota þessa langdrægu dróna á svipaðan hátt og drónana sem eru notaðir í fremstu víglínu og er stýrt af flugmönnum á jörðu niðri.
Rússar eru einnig farnir að senda dróna, án sprengiefnis, til Úkraínu. Markmiðið með þessum fölsku drónum er að villa um fyrir úkraínskum loftvarnarsveitum.