Guðjón Sigurbjartsson, framkvæmdastjóri HEI Medical Travel, fékk yfir sig skæðadrífu af harkalegum athugasemdum í kjölfar þess að hann ákvað að skjóta á strandveiðar í skugga banaslyss Magnús Þórs Hafsteinssonar, fyrrum þingmanns, sem fórst þegar bátur hans sökk úti fyrir Patreksfirði á mánudaginn.
Talsverð umræða hefur verið um strandveiðar í kjölfar loforðs ríkistjórnarinnar um að tryggja öllum strandveiðibátum 48 veiðidaga á veiðitímabilinu frá maí til ágústloka. Sérstaklega af hálfu stórútgerðarinnar sem hafa sagt að taka þurfi kvóta af þeim til að færa smábátaeigendum. Í umræðunni hefur verið bent á slysahættu
„Strandveiðin er svo frábær, er það ekki?“ skrifaði Guðjón, sem er faðir Dóru Bjartar, oddvita Pírata í borgarstjórn, í færslu á Facebook og deildi með andlátstilkynningu Magnúsar Þórs. Sjálfur hefur Guðjón reynt fyrir sér í pólitík en hann hefur gefið kost á sér í prófkjörum hjá Pírötum og Sjálfstæðisflokknum á árum áður.
Óhætt er að fullyrða að viðbrögðin við færslu Guðjóns hafi verið hörð en margir landsþekktir einstaklingar létu Guðjón heyra það í kjölfarið.
„Ertu hálfviti?“ spurði fallni sósíalistaforinginn Gunnar Smári Egilsson. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, fyrrum þingmaður, sagði það sem margir hugsuðu: „Þessi færsla er með því ósmekklegasta sem ég hef séð“. Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, var á svipuðum slóðum: „Þetta er þér ekki til sóma,“ skrifaði Ólafur.
„Hvernig dettur þér þetta í hug?“ spurði Valdimar Örn Flygenring og flokkssystir Dóru Bjartar, Alexandra Briem, bætti við: „Þetta er ekki í lagi Guðjón. Hvernig dettur þér í hug að koma með svona innlegg um hörmulegt slys.“
Þá boðuðu margir að þeir myndu henda Guðjóni af vinalistanum í kjölfar færslunnar. Sá færsluhöfundur þá sæng sína upp reidda og tók færsluna út.
Hörmulegt fráfall Magnúsar Þórs var fyrsta banaslysið á sjó á þessu ári. Ekkert banaslys varð árið 2024 en tvö banaslys urðu á sjó árið 2023 en þar á undan hafði enginn farist í fjögur ár.