Túlkun á kaupmála og eðli séreignarsparnaðar kom til álita hjá Héraðsdómi Reykjavíkur á dögunum en þar tókust á ekkja og synir manns sem lést árið 2023.
Ekkjan og hinn látni gengu í hjónaband árið 2003. Bæði áttu þau börn úr fyrra sambandi og gerðu þau því með sér kaupmála þar sem þau lýstu allar eignir, sem þau komu með inn í hjúskapinn, séreign og tóku af tvímæli um að allt sem hvort þeirra kynni að eignast á sambúðartímanum yrði sömuleiðis séreign. Á sama tíma afsöluðu þau sér arfi eftir hvort annað. Hins vegar var gerð ein veigamikil undantekning frá þessu séreignafyrirkomulagi. Í kaupmálanum sagði:
„Þrátt fyrir afsal erfðaréttar á séreignum skal eftirlaunaréttur haldast og vera gagnkvæmur þannig að það okkar er lengur lifir skal eiga rétt til makalífeyris og hvers konar annarra lífeyrisréttinda, í samræmi við lög hverju sinni og reglur lífeyrissjóða.“
Eftir andlát mannsins árið 2023 fengu synir hans tveir leyfi sýslumanns til einkaskipta, enda væru þeir einir erfingjar. Ekkjan freistaði þess að fá leyfinu hnekkt enda þyrfti að leysa úr með séreignasparnaðinn í samræmi við kaupmálann sem og önnur ákvæði í kaupmála sem kváðu á um afnota- og forkaupsrétt af tilteknum eignum. Sýslumaður neitaði að fella leyfið úr gildi og benti á að séreignasparnaður renni ekki inn í dánarbú og komi ekki til upptalningar á erfðafjárskýrslu.
Ekkjan leitaði þá til Íslandsbanka og krafðist þess að fá sinn skerf af séreignasparnaðinum. Íslandsbanki hafði þá greitt séreignasparnaðinn til afkomenda hins látna og taldi að ekkjan yrði að beina kröfu sinni að sonum hins látna eða dánarbúinu. Synirnir hefðu fengið leyfi til einkaskipta og væru forsvarsmenn dánarbúsins og þeir einir væru tilgreindir erfingjar.
Ekkjan leitaði þá til dómstóla. Hún rakti að hún ætti á grundvelli kaupmála tilkall til búshluta sem og arfshluta af séreignasparnaðinum, eða með öðrum orðum 2/3 hluta séreignarinnar. Skýrt komi fram í kaupmála að þar sé gerð undantekning frá afsali erfðaréttar sem nái til hvers konar lífeyrisréttinda, sama hvaða nafni þau kallast. Eins benti hún á að þeir lögmenn sem séu um gerð kaupmálans hafi staðfest að þegar undantekningin var samin þá var tilgangurinn að tryggja að öll lífeyrisréttindi á sambúðartíma rynnu til langlífari maka. Skyldulífeyrissparnaður erfist ekki og því hefði verið tilgangslaust að semja þessa undanþágu ef ekki væri átt við viðbótalífeyrissparnað.
Synir hins látna vísuðu til þess að þeir hafi þegar fengið þennan séreignasparnað greiddan út á grundvelli þess að þeir væru erfingjar föður síns. Eins hafi Íslandsbanki hafnað því að ekkjan ætti tilkall til sparnaðarins. Kaupmálin fjalli ótvírætt um allar séreignir hjónanna, og þar undir falli séreignasparnaður eðli máls samkvæmt. Gera þurfi greinarmun á lífeyrisréttindum annars vegar og lífeyrissparnaði hins vegar. Kaupmálin geri undantekningu hvað fyrra hugtakið varðar en ekki það seinna.
Dómarinn í málinu rakti að viðbótalífeyrissparnaður hins látna hafi verið séreign hans á hjúskapartíma. Þessi séreign hefði fallið undir arfsframsalið í kaupmálanum ef ekki væri gerð þessi tiltekna undanþága. Dómari teldi engan vafa á því að viðbótarlífeyrissparnaðurinn félli undir þessa undanþágu, enda um réttindi að ræða sem eru með framfærslueðli og renna lögum samkvæmt ekki inn í dánarbú. Hins vegar féllst dómari ekki á það með ekkjunni að hún ætti tilkall til búshluta, enda væri þessi sparnaður ekki hjúskapareign. Ekkjan átti því tilkall til arfshluta, eða þriðjungs sparnaðarins. Þar sem synirnir höfðu fengið þessa fjárhæð greidda út var það rétt hjá ekkjunni að stefna þeim í málinu, enda þeir handhafar þess fjár sem hún krafðist. Dómari gerði eins athugasemd við afgreiðslu Íslandsbanka, sem hefði borið að greiða ekkjunni sinn hluta og alls ekki átt að hafna því að veita ekkjunni frekari upplýsingar um greiðslurnar. Loks hefði bankinn ekki átt að vísa ekkjunni á að beina kröfu sinni að fyrrum stjúpbörnum sínum eða sýslumanni.
Ekkjan ætti því tilkall til þriðjungs þeirrar fjárhæðar sem hvor sonurinn fyrir sig hafði fengið greidda út, með dráttarvöxtum.