Katla Hreiðarsdóttir, eigandi verslunarinnar Systur og makar, er mikill brasari og í nokkur ár hefur hún gert hugmyndir að páskaföndri og deilt frítt með áskrifendum póstlista verslunarinnar.
Í ár ákvað hún að breyta til og bjóða þeim sem vildu að greiða fyrir pakkann smávegis upphæð. Ágóðinn rann til Ljónshjarta. Í dag deildi Katla svo hversu há upphæð safnaðist til þessa góða málefnis.
„Þetta tókst okkur saman!!! Páskapakkinn í ár var eins og fyrri ár frír fyrir alla sem vildu en fæddist svo hugmynd um að bjóða þeim sem vildu að greiða fyrir pakkann. Fengi þannig pakkinn sem nú þegar gleður börn víða um heim enn meira vægi og færi þá upphæðin til góðs málefnis
Ljónshjarta eru samtök til stuðnings fólki sem misst hefur maka og barna sem misst hafa foreldri. Þetta málefni er mér ansi nærri en í febrúar á þessu ári missti ég eldri bróðir minn aðeins 46 ára fjölskyldumann úr illvígu krabbameini.
Vonin var að safna smá sjóð til að gefa í hans nafni en aðalverkefni félagsins er að niðurgreiða sálfræðikostnað barna og maka sem eftir lifa. Það er mér mikill heiður að veita þessu góða félagi þennan veglega styrk með ykkar aðstoð!
1.970.000.- safnast ekki af sjálfu sér, þið gerðuð þetta!
Takk fyrir að vera grand og frábær! TAKK!!!!!
Ps. Það er alltaf hægt að styrkja félagið beint:
Reikningsnúmer: 536-14-400960 Kennitala: 601213-0950.“