Um miðjan dag er til dæmis gert ráð fyrir því að það verði 19 stiga hiti í Reykjavík og heiðskírt og svipað verður uppi á teningnum fyrir norðan og austan. Áframhald verður á blíðunni um helgina og á morgun er gert ráð fyrir sól á öllu landinu og hita sem gæti víða farið í um 20 gráður.
Og á sunnudag gætu enn hærri hitatölur sést og er til dæmis gert ráð fyrir 21 stigs hita í Reykjavík og á Akureyri og 24 stiga hita á Egilsstöðum.
Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands kemur fram að þokubakkar gætu mögulega sett strik í reikninginn við sjóinn á sunnan- og austanveðru landinu, en annars verður bjart um mest allt land og hiti allt að 23 stig í dag.
„Sumarlegt veður er líka í kortunum á mánudag og þriðjudag, en útlit fyrir vætu á vestanverðu landinu seint á miðvikudag,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.
Á laugardag og sunnudag:
Suðaustan 5-13 m/s suðvestanlands, annars hægari vindur. Víða léttskýjað, en sums staðar þokuloft við ströndina. Hiti 13 til 23 stig yfir daginn, hlýjast fyrir norðan, en svalara í þokunni.
Á mánudag og þriðjudag:
Hæg breytileg átt eða hafgola og bjartviðri, en líkur á þoku úti við sjóinn. Áfram hlýtt í veðri, einkum inn til landsins.
Á miðvikudag:
Sunnanátt, skýjað með köflum og rigning eða súld vestanlands síðdegis. Hiti 13 til 21 stig, hlýjast á Norðausturlandi.
Á fimmtudag:
Ákveðin suðaustanátt og rigning með köflum, en þurrt að kalla norðaustanlands. Hiti breytist lítið.