B.T. hefur eftir Splidsboel, að þetta sé ekki raunverulegt friðarútspil hjá Pútín. „Það sem er að gerast, er að hann hafnar vopnahléi. Við verðum að greina orðavalið,“ sagði hann.
Pútín lét þessi ummæli falla eftir að evrópskir þjóðarleiðtogar lögðu til 30 daga vopnahlé en þeirri tillögu höfnuðu Rússar strax.
Það var ekki bara Pútín sem sagði nei: „Rússneskir fjölmiðlar voru mjög neikvæðir áður en hann talaði. Þeir skrifuðu til dæmis: „Rússar, þið eigið að gefast upp“. Þetta var sá rammi sem þeir settu utan um vopnahléstillöguna,“ sagði Splidsboel.
Hann benti á að Pútín hafi áður krafist þess að Úkraína fái ekki vopn, megi ekki kalla menn í herinn né færa hersveitir sínar til, á meðan Rússar megi geri það sem þeim sýnist. Þess vegna geti hann ekki skyndilega samþykkt vopnahlé án skilyrða. En þetta þýðir að mati Splidsboel ekki að Pútín vilji allt í einu frið.
„Pútín vill gjarnan frið, en hann vill ekki varanlegan frið. Hann vill frið út frá sínum skilyrðum og bara tímabundinn frið,“ sagði hann.
Hann sagði þetta snúast um að Pútín vilji hlé til að geta byggt herinn upp á nýjan leik og síðan byrjað stríðið aftur.
„Þá gæti Pútín sagt við sjálfan sig: „Nú tökum við smá hlé og síðan byrjum við aftur eftir tvö eða þrjú ár.“