„Yfirvöld bjóða upp á svona ókeypis tónleika á hverju ári til að laða að ferðamann. Það örugglega margborgar sig því hingað streymir fólk sem eyðir miklum peningum svo þetta skilar sér aftur í kassa hins opinbera,“ segir Þórhallur Steingrímsson, vél- og rekstrarfræðingur, en hann var á tónleikum Lady Gaga á Copacabana-ströndinni í Rio de Janeiro í gær.
Aðgangur var ókeypis og komu 2,1 milljónir manna á tónleikana. Segir Þórhallur að fólk frá öllum heimshornum hafi sótt tónleikana og hann hafi meðal annars hitt fólk frá Noregi.
Þórhallur býr í Rio de Janeiro og er giftur brasilískri konu. Þau nutu tónleikanna í botn þó að þau héldu sig víðsfjarri sviðinu enda ógjörningur að komast að því fyrir mannmergðinni.
„Við vorum bara á veitingastað þarna og nutum lífsins. Af og til gengum við svo í gegnum þvöguna og í áttina að ströndunni. Það voru 20-30 risaflatskjáir meðfram allri ströndinni lengst uppeftir,“ segir Þórhallur.
Vísir greinir frá því að lögreglan í Rio de Janeiro hafi komið í veg fyrir sprengjutilræði í tónleikunum. Hinir grunuðu hafi fengið fólk til að mæta á tónleikana með heimatilbúnar sprengjur. Ætlunin hafi verið að öðlast frægð á samfélagsmiðlum til að geta dreift hatursfullum boðskap í garð hinsegin samfélagsins. Tveir karlmenn hafa verið handteknir vegna málsins, annar er unglingur en hinn fullorðinn karlmaður.
Þórhallur segist ekki hafa orðið var við neitt sem minnti á slíkar lögregluaðgerðir, sem væntanlega hafa farið fram í mikilli fjarlægð frá honum á þessu stóra svæði. Upplifði hann ekkert nema friðsamlega stemningu í fjölmenninu.
Ríó 1
Ríó 2