Björgólfur Thor Björgólfsson, ríkasti maður Íslands, fékk fyrirtækið til að njósna um einstaklinga sem komu að hópmálsókn gegn honum í tengslum við fall Landsbankans. Jón Óttar og Guðmundur störfuðu báðir hjá embætti sérstaks saksóknara þegar fyrirtækið var stofnað en skömmu síðar létu þeir af störfum í skugga þungra ásakana.
Meðal þeirra sem grunaðir eru um að hafa tekið þátt í njósnunum var varðstjóri hjá lögreglunni sem þegar hefur verið leystur undan vinnuskyldu eftir að málið kom á borð lögreglu.
Eðli málsins samkvæmt hafa margir tjáð sig um málið á samfélagsmiðlum og eru flestir slegnir yfir umfjöllun Kveiks.
„Það eru lögreglumenn til sölu í Reykjavík og það voru lögreglumenn til sölu í Pétursborg þegar BThor varð ríkur. Verst hvað skúrkarnir hér eru miklir lúðar, þetta minnir meira á Björnebanden í Andrési Önd en handritið í góðri glæpamynd. Furðulegt að þessi söfnuður hafi verið útflutningsvara,” segir Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, fjölmiðlakona og upplýsingafulltrúi, á Facebook-síðu sinni.
Alexandra Briem borgarfulltrúi segir að um rosalegt mál sé að ræða.
„Það hefur svosem ekki farið framhjá neinum að þessi deila milli Björgólfs Thors og Róberts Wessman hefur verið fáránleg og barnaleg og hvorugum þeirra til stækkunar, en þetta er svo langt langt út fyrir öll mörk. Rosalegar persónunjósnir gagnvart saklausu fólki sem vill bara leita réttar síns eru engan veginn í lagi og undirstrikar hvað við erum komin á skrítin stað þegar ofurríkir menn líta á samfélagið okkar sem einhvers konar leikvöll fyrir sig og okkur ‘venjulega’ fólkið sem bara einhvers konar peð eða ómerkilegar hindranir sem megi beita hvaða ráðum sem er gagnvart í leiknum hver við annan. Og að lögreglumaður á vakt skuli taka þátt í þessu…,” segir hún meðal annars.
Egill Helgason sjónvarpsmaður og samfélagsrýnir var stuttorður í sinni færslu. „Þetta eru nú meiri lúðarnir,” sagði hann. Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, sagði síðan kaldhæðinn á Facebook-síðu sinni : „Og lögreglan vill auknar heimildir.”
Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur og fyrrverandi þingmaður, rifjar upp Óskarsverðlaunamyndina Das Leben des Anderen.
„Við munum þessa mynd um lífið í austur-Þýskalandi um hleranir sem fjallaði um sumt af því versta í mannlegu samfélagi og sumt af því besta í mannlegu hátterni. Þar sáum við njósnara sýna mennsku á örlagastundu án þess að eiga von á annarri umbun en þeirri sem sá fær sem vinnur kærleiksverk. Í gærkvöldi sáum við menn að störfum við að fylgjast náið með ferðum samborgara sinna í þeirri von að sjá þá gera eitthvað sem nota mætti gegn þeim, gramsa í bílskúrum, skrá bílnúmer maka og fjölskyldumeðlima … Hnýsast í einkahagi samborgara sem ekki höfðu annað til saka unnið en að telja sig hafa verið hlunnfarna af manninum sem réði njósnarana til starfa. Þetta sýnir fullkomið og blygðunarlaust siðleysi allra þeirra sem nærri þessu koma. Við getum ekki liðið starfsemi af þessu tagi í okkar litla samfélagi. Þessir menn mega ekki komast upp með að reka eitthvert prívat-stasi mitt á meðal okkar.