„Að mínum dómi hefur ákveðið einelti verið í gangi þarna í lengri tíma. Það hafa komið upp mörg álitamál þar sem ekki hefur verið farið eftir stjórnsýslulögum og eðlilegum stjórnsýsluháttum,“ segir Börkur I. Jónsson, lögmaður Glímudeildar Njarðvíkur/Sleipnis vegna ályktunar Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjanesbæjar um að iðkendum félagsins skuli verða úthýst frá æfingum úr Bardagahöll Reykjanesbæjar.
Íþrótta- og tómstundaráð segir að það sé samdóma álit sitt að félagið eigi ekki að hafa lengur aðstöðu í bardagahöllinni. Sem ástæður er meðal annars vísað til þess að ekki hafi tekist að koma á starfsfriði þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Auk þess er vísað í lögfræðiálit þar sem kemur fram að bæjarfélaginu sé ekki skylt að veita Glímudeild Njarðvíkur/Sleipni aðstöðu til æfinga.
Börkur segir að ályktun Íþrótta- og tómstundaráðs byggi á röngum forsendum. Varðandi vísun í skort á starfsfriði bendir hann á að enginn ágreiningur hafi komið upp á milli ráðsins og glímudeildarinnar allt þetta ár.
Fyrri harkalegar ákvarðanir ráðsins í garð glímudeildarinnar hafa verið kærðar til bæjarráðs og Umboðsmanns Alþingis en þeir aðilar hafa ekki skilað áliti i málinu.
„Rauði þráðurinn í þessu máli er að mínum dómi stjórnsýslulegt einelti,“ segir Börkur.
En beinist þetta meinta einelti gegn stofnanda deildarinnar, Guðmundi Stefáni Gunnarssyni?
„Það er ómögulegt að slá því föstu en það virðist þó alltaf vera undirliggjandi. Hann hefur haldið áfram að kenna og verið viðriðinn félagið,“ segir Börkur, en Guðmundur hætti fyrir nokkru síðan í stjórn félagsins.
Þrátt fyrir ályktun Íþrótta- og tómstundaráðs sækja börnin sem æfa hjá glímudeildinni enn æfingar í Bardagahöllinni. Ekki verður skellt í lás fyrr en í fyrsta lagi eftir að bæjarráð hefur fjallað um málið.
Á þessum tímapunkti liggur ekki fyrir hvernig glímudeildin mun bregðast við.
„Það er ekki búið að ákveða viðbrögð. Við eigum eftir að sjá hvernig bæjarstjórn bregst við þessu, hvort þau munu staðfesta þetta eða ekki. Síðan á bara stjórn félagsins eftir að ákveða hvernig brugðist verður við því,“ segir Börkur.