fbpx
Þriðjudagur 28.maí 2024
Fréttir

Skýr merki um brotalamir í meðferð dánarbúa erfingjalausra – 178 milljónir í ríkissjóð á fimm árum en hvar er eftirlitið?

Erla Dóra Magnúsdóttir
Laugardaginn 20. apríl 2024 12:09

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ríkissjóður tekur arf frá einstaklingum sem hafa ekki gert erfðaskrá og eiga hvorki skyldu- né lögerfingja. Slíkt er ekki algengt en þó getur verið um umtalverðar fjárhæðir að ræða. Brotalöm virðist vera á framkvæmd og eftirlit með slíkum dánarbúum en ekki er haldin sérstök skrá um þessi tilvik og ástæður eru að ætla að eftirliti sé stórlega ábótavant. Dæmi eru dánarbú sem þetta þar sem gert var upp við ríkissjóð sex árum eftir dánardag hins látna.

Við andlát einstaklings sem á engan erfingja samkvæmt erfðalögum renna eignir viðkomandi í ríkissjóð. Þegar slíkt á sér stað er gjarnan talað um fjórðu erfðina.

Erfitt hefur reynst að fá svör um mál þar sem arfur rennur í ríkissjóð. Fyrirspurn var beint til fjármálaráðuneytis á síðasta ári en þá fengust þau svör að ómögulegt væri að svara spurningum þar sem umbeðin gögn væru ekki til. Úrskurðarnefnd upplýsingamála staðfesti niðurstöðu ráðuneytis og var því fyrirspurn endurorðuð í samræmi við niðurstöðu nefndarinnar og þá fengust loks einhver svör. Þau lúta að fjölda tilvika og fjárhæðum en ekki fengust svör um hvernig eftirliti með þessum málum er háttað, eða hvort slíkt eftirlit sé yfirhöfuð til staðar.

Sjá einnig: Dularfull afdrif arfsins sem rennur í ríkissjóð á grundvelli fjórðu erfðarinnar – Ráðuneytið neitar að veita upplýsingar og segir gögnin ekki til

178 milljónir á fimm árum

Áður en eignirnar renna í ríkissjóð er skipaður skiptastjóri og fram fara opinber skipti. Tilvik sem þessi eru ekki algeng og við rannsókn blaðamanns á framkvæmd og eftirlit með þessum málum var fátt um svör þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir. Fjármálaráðuneytið gat þó veitt yfirlit um greiðslur sem hafa runnið í ríkissjóð síðustu fimm ár, en á því tímabili fékk ríkissjóður rúmlega hundrað milljónir í arf frá erfingjalausum einstaklingum.

Greiðslurnar voru sundurliðaðar í svari með eftirfarandi hætti, en í heild námu greiðslur í ríkissjóð á tímabilinu 178.195.462 kr.:

 • 2024
  • Db. I a endurupptekið vegna eigna sem runnu til dánarbúsins
   • Viðbótargreiðsla til ríkissjóðs 445.389 kr.
 • 2023
  • Engar greiðslur bárust vegna uppgörs á dánarbúum til ríkissjóðs sem erfingja
 • 2022
  • Db. Ó a
   • Greiðsla til ríkissjóðs var 6.207.504 kr.
  • Db. B
   • Greiðsla til ríkissjóðs var 77.670.598 kr. Þá var jörðin Oddi í Skaftárhreppi einnig afhent ríkissjóði til eignar.
 • 2021
  • Db. Ó b
   • Greiðsla til ríkissjóðs 11.597.149 kr.
  • Db. I a
   • Greiðsla til ríkissjóðs var 9.452.346 kr.
  • Db. I b
   • Greiðsla til ríkissjóðs 39.124.783
 • 2019
  • Db. G
   • Greiðsla til ríkissjóðs 33.697.693 kr.
 • 2018
  • Db. E
   • Engin greiðsla til ríkissjóðs sem erfingja vegna uppgjörs á dánarbúi. Eignir búsins dugðu ekki fyrir kostnaði.

Ráðuneytið vakti athygli á því að sýslumaður fer fram á að héraðsdómur úrskurði um að dánarbúin séu tekin til opinberra skipta. Það sé skiptastjóri sem annast öll störf er lúta að meðferð búsins, aflar upplýsinga um eignir, kemur þeim í verð nema farið sé fram á annað og gerir að öðru leyti upp eignir og skuldir dánarbúsins.

Óljóst hvernig ríkissjóður gætir hagsmuna sinna

Vanalega þegar dánarbú eru tekin til skipta eru til staðar erfingjar sem veita skiptastjóra aðhald og fylgjast með framkvæmd skiptanna. Þegar leitast var eftir svörum um hvernig ríkissjóður gætir hagsmuna sinna í þessum tilvikum var lítið um svör.

Spurt var: „Fyrst ríkissjóður er þarna í raun erfinginn, hefur hann enga aðkomu að sjálfum skiptunum líkt og erfingjar í hefðbundnum tilvikum gera? Er fulltrúi ríkissjóðs boðaður á skiptafundi, eða er fyrsta aðkoma ríkissjóðs að taka við greiðslunni þegar allt er klappað og klárt?“

Þessi framhaldsfyrirspurn var borin upp í janúar ásamt því að óskað var eftir frekari gögnum til að varpa ljósi á framkvæmd skipta sem þessa. Ráðuneytið óskaði eftir nákvæmari útlistun á fyrirspurn og var þá óskað eftir upplýsingum um hvernig eignir eru metnar, þeim komið í verð, hvaða verkferlar séu í gildi, hvernig eftirliti er áttað og hvernig tryggt sé að enginn sé að auðgast með ólögmætum hætti á dánarbúum svo sem með því að hirða þaðan eignir, selja á óeðlilega hagstæðum kjörum, að skiptastjórar reikni sér eðlilega þóknun og ljúki skiptum á eðlilegum tíma.

Eins var t.d. spurt hvað verði um eignir á borð við gömul bréf, myndir, muni með tilfinningalegt gildi fyrir stórfjölskyldu, höfundarrétt og annað.

Ekki bárust frekari svör frá ráðuneyti.

Ríkisendurskoðun ekki með sérstakt eftirlit

Þá var leitað eftir svörum hjá Ríkisendurskoðun. Í þeim segir að aðkoma embættis Ríkisendurskoðanda snúi fyrst og fremst að endurskoðun ríkisreiknings. Embættið hefur enga aðkomu að bókhaldi eða gerð uppgjörs fyrir ríkissjóð.

Tekjur ríkissjóðs vegna arfs eru tekjufærðar sem ríkistekjur á bókhaldslykil sem varðar óvissar tekjur. Á þennan lið er ýmislegt annað bókað en við endurskoðun ríkisreiknings eru gjalda- og tekjuliðir skoðaðir heildstætt.

„Ríkisendurskoðun hefur því ekki sértækt yfirlit yfir þá fjármuni sem hafa runnið í ríkissjóð vegna arfs á undanförnum árum. Tilfellin virðast fá, e.t.v. 1-3 á ári undanfarin fimm ár.

Sýslumannsembættin halda utan um uppgjör þeirra dánarbúa þar sem enginn erfingi finnst ásamt skipuðum skiptastjórum og ættu upplýsingar um verklag tengt málaflokknum að vera til staðar þar. Ríkisendurskoðun hefur ekki upplýsingar um annað en það sem snýr að fjárgreiðslum vegna arfs sem færast þá sem ríkistekjur að uppgjörum loknum. Í einhverjum tilvikum kunna þó fasteignir eins og jarðeignir að hafa fallið til ríkissjóðs en í því sambandi vísast til fjármála- og efnahagsráðuneytis.“

Ekki aðgreint í málaskrá sýslumanna

Ríkisendurskoðun vísaði til sýslumanna og var því fyrirspurn næst beint þangað. Tók Fullnustu- og skiptasvið embættis sýslumanns á höfuðborgarsvæðinu að sér að svara.

Þar var bent á að um skipti dánarbúa gildi lög og farið sé eftir ferli sem er auglýst á vef sýslumanna. Þegar látinn einstaklingur á enga erfingja og engar eignir er sýslumanni heimilt að loka dánarbúinu sem eignalausu. Ef eignir eru í búinu óskar sýslumaður eftir opinberum skiptum og skipar Héraðsdómur í kjölfar skiptastjóra sem annast skiptin og greiðslur í ríkissjóð. Skiptastjóri fyllir í kjölfarið út erfðafjárskýrslu í samræmi við frumvarp til úthlutunar úr búinu og leggur fyrir sýslumann til áritunar. Skýrslan er svo send til ríkisskattstjóra sem yfirfer hana og kannar hvort eignir séu réttilega taldar fram.

Sýslumaður skrái ekki dánarbú sem þessi sérstaklega í málaskráningarkerfi og þau því ekki aðgreind frá öðrum og ekki hægt að kalla fram upplýsingar um fjölda slíkra dánarbúa eða fjárhæðir sem runnu til ríkissjóðs.

Svar ráðuneytis tilgreindi jörð sem rann til ríkisins. Út frá þeim upplýsingum var hægt að hafa upp á nafni hins látna og dánardegi sem var árið 2016. Skiptum dánarbús lauk þó ekki fyrr en sex árum síðar. Var því óskað eftir frekari svörum frá sýslumanni og afhendingu gagna sem varpa betur ljósi á verklag, eftirlit og framkvæmd. Var í fyrirspurn vísað til eldra tilviks þar sem stórfjölskylda hins látna, sem þó töldust ekki erfingjar, höfðu lýst raunum sínum við að reyna að fá afhenda muni með tilfinningalegt gildi fyrir fjölskylduna. Þau greindu frá því að hafa þurft að snúa sér til fulltrúa sýslumanns til að komast í muni á heimili hins látna, en ekki til skiptastjóra.

„Hver veitir skiptastjóra aðhald, tryggir að endurgjald hans og sá tími sem hann tekur í skiptin sé innan eðlilegra marka? Hvaða skiptastjórar eru þetta, og hvar er hægt að komast í þær upplýsingar?

Hvernig er tryggt að þessi framkvæmd sé eðlileg, í samræmi við hagsmuni og vilja hins látna, að þess sé gætt að persónulegir munir sem gætu skipt máli fjarskyldari ættingjum en þeim sem tilgreindir eru sem lögerfingjar, svo sem myndir, gamlir húsmunir, stell og slíkt?“

Sagðist embættið ætla að taka málið til frekari skoðunar en engin svör bárust í kjölfarið þrátt fyrir ítrekun.

Af ofangreindu má sjá að óvarlegt er að halda því fram að losarabragur sé á framkvæmd og eftirliti. Enginn erfingi er til staðar til að veita aðhald og þeir opinberu aðilar sem leita var svara til vísuðu hvorn á annan en enginn gat með fullnægjandi sýnt fram á að viðunandi reglur og eftirlit séu með þessum dánarbúum.

Hverjir geta verið erfingjar?

Rétt er að benda á að lögerfingjar samkvæmt lögum eru afkomendur, hjúskaparmaki, foreldrar, ömmur og afar. Ef annað foreldri er látið rennur hluti þess til barns eða annarra niðja, en ef ekki er öðrum niðjum fyrir að fara þá tekur hitt foreldrið allan arf

Ef foreldrar eru bæði látin og eiga enga niðja þá rennur helmingur arfs til föðurforeldra og hinn til móðurforeldra. Ef móður-eða föðurforeldri er látið rennur hluti þeirra til barna þeirra, en ef engum börnum er fyrir að fara þá stoppar keðjan þar, eða með öðrum orðum þá rennur arfurinn ekki áfram til barnabarna.

Ef þú ert giftur og/eða átt börn eða aðra afkomendur þá teljast þau svokallaðir skylduerfingjar. Skylduerfingjar koma í veg fyrir að hægt sé að ráðstafa meira en þriðjungi eigna með erfðaskrá. Ef engum slíkum erfingja er fyrir að fara máttu ráðstafa öllum eignum með erfðaskrá. Þetta þýðir að foreldrar, systkini, ömmur og afa

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Missti hluta af öðru nýranu en fær engar bætur

Missti hluta af öðru nýranu en fær engar bætur
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Bráðfyndið atvik í verslun – Reyndi að svíkja út pening en var sjálf kærð

Bráðfyndið atvik í verslun – Reyndi að svíkja út pening en var sjálf kærð
Fréttir
Í gær

Tilkynnt um mann sem „beraði sig og hristi“

Tilkynnt um mann sem „beraði sig og hristi“
Fréttir
Í gær

Stoltenberg vill að Úkraínumenn fái að nota vestræn vopn til árása á rússneskt landsvæði

Stoltenberg vill að Úkraínumenn fái að nota vestræn vopn til árása á rússneskt landsvæði
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Anita hvetur yfirvöld til að segja nafn látinnar dóttur sinnar upphátt – „Þetta eru óafturkræf mistök, óafturkræf vanræksla“

Anita hvetur yfirvöld til að segja nafn látinnar dóttur sinnar upphátt – „Þetta eru óafturkræf mistök, óafturkræf vanræksla“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þetta eru dýrustu og ódýrustu borgir Evrópu til að fara í helgarferð

Þetta eru dýrustu og ódýrustu borgir Evrópu til að fara í helgarferð