fbpx
Laugardagur 27.júlí 2024
Fréttir

Dóttir manns sem var ranglega sakaður um að hafa brotið gegn henni vill vita sannleikann – „Faðir minn jafnaði sig aldrei á þessu“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 20. apríl 2024 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Mér finnst ég vera hlekkjuð og ekkert komast áfram með lífið fyrr en ég veit hver laug þessu upp á föður minn, þetta hefur setið fast í sálinni og ég krefst skýringa á því hvernig stóð á því að barnavernd brást mér og foreldrum mínum með þessum óhæfu vinnubrögðum,“ segir fertug kona í viðtali við DV. Faðir hennar, sem er látinn, var sakaður um hrottalegt kynferðisbrot gegn henni er hún var fjögurra ára. Ásökunin reyndist fullkomlega tilhæfulaus en hafði mjög alvarlegar afleiðingar fyrir fjölskylduna. Núna hátt í fjórum áratugum síðar eru sálarsár vegna málsins enn ekki gróin.

Konan kemur fram undir nafnleynd af virðingu við minningu föður síns og til að virða persónuvernd fjölskyldu hennar. DV hefur gögn málsins undir höndum en hér verður látið ógert að greina frá ýmsu sem þar er að finna, meðal annars nöfnum málsaðila, enda eru að minnsta kosti þrjár manneskjur sem höfðu aðild að málinu látnar í dag.

Þó að málið sé gamalt þá var það nýleg frétt á dv.is sem leiddi til þess að konan hafði samband og óskaði eftir að koma sögu sinni á framfæri. Þann 3. apríl birtist frétt þess efnis að héraðssaksóknari hafi ákært mann fyrir rangar sakargiftir. Ákært er vegna atviks sem átti sér stað árið 2020 þegar maður hringdi í Neyðarlínuna og sendi tölvupóst til barnaverndar þar sem hann sakaði föður um svívirðilega glæpi gegn tveimur dætrum sínum. Sakaði hann föðurinn um að nauðga dætrum sínum og deila myndefni af kynferðisbrotum gegn stúlkunum á erlendri vefsíðu.

Þetta leiddi til þess að faðirinn var handtekinn og lögregla hóf rannsókn á málinu. Eftir að hann hafði verið yfirheyrður og viðtöl tekin við dæturnar í Barnahúsi hætti lögreglan rannsókn málsins. Þar sem ásakanirnar virðast hafa verið uppspuni hefur héraðssaksóknari núna ákært þann sem bar þær á föðurinn fyrir rangar sakargiftir, nánar tiltekið fyrir brot á 1. málsgrein 148. greinar almennra hegningarlaga, sem er eftirfarandi:

„Hver, sem með rangri kæru, röngum framburði, rangfærslu eða undanskoti gagna, öflun falsgagna eða á annan hátt leitast við að koma því til leiðar, að saklaus maður verði sakaður um eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað, skal sæta … 1) fangelsi allt að 10 árum. Við ákvörðun refsingar skal hafa hliðsjón af því, hversu þung hegning er lögð við broti því, sem sagt er eða gefið til kynna, að viðkomandi hafi drýgt.“

Réttarhöldum er nýlokið í þessu máli en hinn ákærði bíður dóms.

Þóttist vera dagmamma barnsins

„Þessi frétt setti mig gjörsamlega á hliðina og ég varð að hafa samband,“ segir konan. Í gögnum sem hún veitti DV aðgang að kemur í ljós að kona sem sagðist vera dagmamma hennar hafði samband við konu í svokölluðum barnahópi Kvennaathvarfsins, sem þá var starfræktur. Konan hjá Kvennaathvarfinu tilkynnti málið áfram til Félagsmálastofnunar.

Upprunalegi tilkynnandinn sagðist vera dagmamma fjögurra ára stelpu. Sagði hún stelpuna hafa verið með áverka á kynfærum. Nafngreindi hún fjölskylduna og hafði augljóslega upplýsingar um fjölskylduhagi barnsins.

Það kom í ljós við eftirgrennslan Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar að barnið var ekki hjá dagmömmu heldur á leikskóla. Starfsfólk þar vissi ekki til að neitt amaði að barninu og enginn þar kannaðist við að hafa lagt inn tilkynningu af þessu tagi.

Tvær konur frá barnaverndarnefnd voru sendar heim til fjölskyldunnar. „Þær sögðu foreldrum mínum að þetta væri akút-tifelli. Tilkynning hefði borist frá ákveðnum aðila um að faðir minn misnoti mig kynferðislega. Foreldrar mínir sögðu að þetta gæti ekki verið annað en lygi en konurnar sögðu að þetta væri engin lygi og horfðu á föður minn eins og hann væri sekur,“ segir konan í samtali við DV og hefur frásögnina eftir móður sinni, sem er enn á lífi. Sjálf man hún atvikin mjög óljóst enda var hún aðeins fjögurra ára gömul.

„Þær fóru með mig og mömmu í bíl á Barnaspítala Hringsins. Í bílnum yfirheyrðu þær mömmu stöðugt, spurðu hana ítrekað hvort hana grunaði ekki föður minn um að hann væri að brjóta á mér. Mamma hágrét en þær tóku ekki tillit til þess og voru mjög aðgangsharðar við hana. Niðri á spítala var síðan gerð á mér læknisskoðun og um kvöldið var ákveðið að setja mig í svæfingu og framkvæma legskoðun. Ég var á spítalanum yfir nóttina og útskrifaðist morguninn eftir.“

Gögn málsins sýna að ekkert athugavert fannst við skoðun á stúlkunni og Félagsmálastofnun Reykjavíkur felldi málið niður. En atvikið hafði lamandi áhrif á fjölskylduna og segja má að foreldrarnir hafi varla litið glaðan dag eftir þetta. „Þetta lék föður minn mjög grátt. Það var hrikalegt áfall fyrir hann að þurfa að horfa á eftir mér og mömmu fara burtu með þessum tveimur konum út af svona hræðilegum ásökunum í hans garð sem reyndust síðan vera lygi. Þetta braut föður minn niður og hann jafnaði sig aldrei almennilega á þessu.“

„…að barnið væri stórskaðað að neðan“

„Foreldrar mínir urðu fyrir miklu fjárhagslegu tjóni út af þessum aðgerðum. Móðir mín varð óvinnufær í þó nokkurn tíma og því fylgdi tekjutap. Hún grét í mörg ár út af þessu og brast oft í grát í vinnunni. Þau þurftu að fá þjónustu lögfræðings til að freista þess að ná fram réttlæti því faðir minn vildi fara í mál við Félagsmálastofnun Reykjavíkur og hann krafðist lögreglurannsóknar á málinu,“ segir konan. Lögfræðingurinn kostaði sitt fyrir efnalitla fjölskyldu.

Faðir hennar dó fyrir aldur fram, aðeins 59 ára gamall. „Hann jafnaði sig aldrei á þessum alvarlegu ásökunum og það sat lengi í honum að hafa aldrei verið beðinn afsökunar.“

DV hefur undir höndum bréf sem lögfræðingur fjölskyldunnar sendi Félagsmálastofnun Reykjavíkur. Þar fer hann fram á að upplýst verði um nafn heimildarmannsins sem lagði fram falska tilkynningu um ofbeldi föðurins gegn dótturinni. Í bréfinu segir meðal annars:

„Almennt verður að líta svo á að kynferðisbrot gegn börnum séu með ljótustu brotum sem hægt er að fremja. Þess vegna er örugglega erfitt um vik þegar ábendingar af þessu tagi komast í hendur Barnaverndarnefndar eða starfsmanna hennar. Vegna réttaröryggis verður hins vegar að gera kröfu til ítrustu vandvirkni í vinnubrögðum, ella er hætta á stórslysi eins og þetta dæmi sannar. Grundvallaratriðið er að heimildir séu traustar þ.e.a.s. að ekki sé gripið til svo afdrifaríkra aðgerða eftir óstaðfestum ábendingum ónafngreindra aðila einhvers staðar frá. Mál það sem hér um ræðir er mjög alvarlegt. Það ber þannig að að um kl. 17:30, föstudaginn 12. ágúst s.l. knúðu dyra á heimili þeirra hjóna tvær konur, starfsmenn Félagsmálastofnunar. Þær segja frá því í upphafi að þær hafi fengið upphringingu frá ákveðnum aðila með ábendingu um að barnið væri stórskaðað að neðan. Móðirin fékk auðvitað áfall, hún hljóp til og náði í barnið, girti niður um hana en ekkert var sjáanlegt. Konan marg ítrekaði við starfsmenn Félagsmálastofnunar að hér hlyti að vera einhver alvarlegur misskilningur. Sjálf hefði hún ekki orðið vör við neitt óvanalegt og að hún vildi vita hver hefði hringt. Henni var þá sagt að upplýsingarnar fengi hún ekki strax en ef ábendingin væri uppspuni, yrði heimildarmaðurinn látinn gjalda fyrir.“

Þess skal getið að foreldrarnir samþykktu læknisskoðun á dótturinni enda vildu þau að sannleikurinn kæmi fram og höfðu ekkert að fela. En ekki var staðið við fyrirheit um að heimildarmaður yrði látinn gjalda fyrir falska ábendingu. Síðar í bréfi lögfræðingsins segir:

„Hjónin vilja ekki og ætla ekki að sætta sig við þessar aðferðir. Þau taka þennan atburð ákaflega nærri sér og hafa þar að auki orðið fyrir fjárhagstjóni og miska af þessum sökum. Þess vegna tek ég ekki góða og gilda þá afsökun Félagsmálastofnunar að heimildarmaður sé óþekktur og ég trúi ekki að starfsmenn Félagsmálastofnunar leggi í þvílíkar aðgerðir án öruggra heimilda. Ef svo er, hafa starfsmenn þeir sem í hlut eiga gerst sekir um þvílíka yfirsjón að málið verður að fara lengra.“

Í lok bréfsins krefst lögmaðurinn þess síðan að nafn heimildarmannsins verði gefið upp. „Að öðrum kosti er ég til þess knúinn að fá málið rannsakað með öðrum hætti,“ skrifar hann.

Í svarbréfi yfirmanns fjölskyldudeildar Félagsmálastofnunar er þeirri ósk hafnað að upplýsa um nafn tilkynnandans. Þar er rannsókn málsins rakin og nefnt að hún hafi verið felld niður er í ljós kom að ekkert studdi ásakanir um kynferðisofbeldi föðurins gegn stúlkunni. Yfirmaðurinn lýsti jafnframt yfir fullri ábyrgð sinni á aðgerðunum gegn fjölskyldunni. Er það nefnt sem röksemd fyrir því að hefja rannsóknina að hinn óþekkti tilkynnandi hafi augljóslega þekkt til fjölskylduaðstæðna en erfiðleikar voru í fjölskyldunni, meðal annars dvaldist eldri systir konunnar um þetta leyti í Unglingaathvarfinu í Tryggvagötu. Segir konan í samtali við DV að af þessum ástæðum hafi heimilið verið undir smásjá barnaverndarnefndar og starfsfólk þar hafi trúað öllu illu upp á föður hennar. Það sé hins vegar staðreynd að fyrir utan þessa einu fölsku tilkynningu hafi hann aldrei verið sakaður um kynferðisofbeldi.

Hvað sem líður hinum harða tóni í bréfi lögmannsins er óljóst um afdrif málsins, t.d. hvort lögregla rannsakaði það. Konan á eftir að kanna betur þann hluta sögunnar og kalla eftir meiri gögnum.

Nafnleynd er reglan

Sú meginregla gildir í störfum barnaverndarnefnda að þeir sem tilkynna um illa meðferð á börnum eða óviðunandi aðstæður þeirra njóta nafnleyndar. Árið 2004 var sett reglugerð um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd og þar segir um nafnleynd:

„Ef tilkynnandi skv. 16. gr. barnaverndarlaga óskar nafnleyndar gagnvart öðrum en nefndinni skal það virt nema sérstakar ástæður mæli gegn því. Ef barnaverndarnefnd fær rökstuddan grun um að tilkynnandi hafi vísvitandi komið á framfæri rangri eða villandi tilkynningu getur nefndin tekið ákvörðun um að aflétta nafnleyndinni. Gefa skal tilkynnanda kost á að tjá sig áður en ákvörðun er tekin og leiðbeina skal tilkynnanda um rétt hans til að skjóta ákvörðun nefndar til kærunefndar barnaverndarmála. Ef tekin er ákvörðun um að aflétta nafnleynd geta barnaverndarnefnd og/eða forsjáraðilar barns óskað lögreglurannsóknar á meintu broti gegn 96. gr. barnaverndarlaga.“

Ljóst er samkvæmt þessu ákvæði að nafnleyndarreglan er ekki algild og ófrávíkjanleg. Nokkuð hefur reynt á hana fyrir dómstólum undanfarin ár en þar hefur iðulega verið dæmt og úrskurðað gegn kærendum sem vilja afléttingu á nafnleynd. Oftast er þá vísað til hagsmuna barnsins sem í hlut á en það á augljóslega ekki við í þessu gamla máli. Það er þessari konu ekki í hag að vita ekki nafnið á manneskjunni sem sakaði föður hennar um svívirðilegt ofbeldi gegn henni. Öðru nær, eða eins og hún segir sjálf:

„Ég vil fá að vita hver þetta er því þetta hefur haft virkilega slæm áhrif á mig allt mitt líf, ekki síst eftir að ég fékk gögnin um málið í hendur. Þá var eins og rifið væri ofan af sárinu í sálinni og það fór að blæða á ný. Ég fann hvernig ég hafði blokkað á þetta og blokkað á alla mína barnæsku. Ég rek það til þessa máls hvernig líf mitt hefur mótast og verið gegnsýrt kvíða, þunglyndi og flókinni áfallastreitu. Ég er núna komin í mikla sjálfsvinnu með hjálp geðheilsuteymis til að freista þess að losna úr viðjum fortíðarinnar. Ég þarf að horfast í augu við fortíðina til að geta sleppt takinu á henni og upplifað sálarfrið.“

Konan segir að það sé sín skoðun að falskar ásakanir af þessu tagi jafngildi sálarmorði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt