fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Altjón varð á leiguíbúð – Leigusali vildi hirða allt tryggingarféð og þrætt um hver átti ísskápinn

Ragna Gestsdóttir
Fimmtudaginn 22. febrúar 2024 11:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 19. desember 2022 kviknaði í íbúð út frá potti sem hafði gleymst á hellu, enginn var í íbúðinni svo eldurinn kraumaði, íbúðin var óíbúðarhæf og um altjón að ræða. Íbúðin var í útleigu og var leigusamningur frá 27. júlí 2021 til 27. júlí 2023 í gildi. Bæði leigjandi og leigusali voru vel tryggðir vegna brunans, ákváðu þeir að leigjandi fengi íbúðina aftur að viðgerð lokinni en leigjandinn sagði leigunni upp 1. febrúar 2023.

Var leigjandinn krafinn um leigu út leigutíma en því svo verið breytt til 1. júlí. Leigjandi greiddi fulla leigu fyrstu tvo mánuði ársins en síðar fékk hann upplýsingar um að leigusalinn hafi einnig fengið bætur fyrir tapaða leigu í sex mánuði. Ágreiningur varð milli leigusala og leigjanda um tryggingafé sem leigjandi hafði lagt fram í upphafi leigutíma og hversu háa fjárhæð leigjandi átti að fá greidda tilbaka. Leigjandinn leitaði úrlausnar á ágreiningnum hjá Kærunefnd húsamála.

Nýir leigjendur fluttu í íbúðina 27. maí 2023, þrátt fyrir að leigusamningur hafi verið milli leigusala og leigjanda í þessu máli til 27. júlí 2023, sem síðar var breytt til 1. júlí 2023 eins og áður sagði. 

Réðu báðir lögfræðing vegna ágreinings 

Viðgerð á íbúðinni lauk 8. maí 2023. Leigusalinn sagði útgjöld sín vegna skemmdanna nema meira en 600.000 krónum, en inni í þeirri upphæð var lögfræðikostnaður. Leigjandi réð sér lögfræðing vegna ágreinings aðila og því hafi leigusali þurft að ráða sér lögfræðing. 

Lögbundin brunatrygging náði ekki yfir allt tjónið og heimilistrygging leigusala náði ekki yfir tjónið þar sem hann bjó ekki í íbúðinni. Leigusalinn krafðist þess vegna að halda öllu tryggingafénu eftir, 480.000 krónum, vegna lausamuna sem hafi ekki fallið undir tryggingarnar, svo sem uppþvottavél, spegil og viftu. 

Kostnaður vegna skemmda nam 116.322 krónum að sögn leigusalans, sem tilkynnti fyrrum leigjanda sínum að tryggingin færi upp í skemmdir og það sem út af stæði eftir að greiddar hefðu verið brottflutningsbætur færi einnig upp í kostnað vegna þessa máls. Á meðal þess sem ekki hafi verið bætt sé ísskápur (130.000 kr.), uppþvottavél (70.000 kr.), örbylgjuofn (35.000 kr.), vifta (50.000 kr.), ljós (150.000 kr.), lausir skápar (120.000 kr.) og ýmislegt annað sem hafi ekki fallið undir lögbundna brunatryggingu. Til dæmis hafi varnaraðili þurft að kaupa ljósleiðarabox á 55.000 kr. Þá hafi útseldur tími lögfræðings numið 32.000 kr. fyrir utan vsk.

Leigusali má ekki ráðstafa tryggingarfé 

Í úrskurði kærunefndar húsamála kom fram að leigusali má ekki ráðstafa tryggingarfé eða taka af því án samþykkis leigjanda nema fyrir liggi endanleg niðurstaða um bótaskyldu leigjanda. Þó sé leigusala jafnan heimilt að ráðstafa tryggingarfénu til greiðslu á vangoldinni leigu, bæði á leigutímanum og við lok hans. Leigusali hafi fjórar vikur frá því að leigjandi skilar leiguhúsnæði til að tilkynna leigjandanum hvort hann geri kröfu í tryggingaféð. Geri hann það hafi leigjandi síðan aðrar fjórar vikur til að tilkynna leigusala að hann fallist á kröfu leigusala eða hafni kröfunni. 

Samkvæmt 39. gr. húsaleigulaga er tryggingarfé ætlað til tryggingar á leigugreiðslum og skaðabótum vegna tjóns á hinu leigða sem leigjandi beri ábyrgð á samkvæmt ákvæðum húsaleigulaga eða almennum reglum. Tryggingarfé er þannig ekki ætlað til að standa undir kostnaði sem er tilkominn vegna lögfræðiaðstoðar í tengslum við ágreining aðila og var því kröfu leigusala í tryggingarféð vegna lögfræðikostnaðar hafnað.

Hver átti ísskápinn? 

Stóð þá eftir að úrskurða um hvort leigusalanum hafi verið heimilt að halda tryggingarfénu eftir vegna skemmda sem hafi orðið á hinu leigða vegna brunans. Kom fram að tölvupóstar vegna sáttaumræðna höfðu gengið á milli lögmanna aðila. Hafði leigjandi boðist til að greiða 100.000 krónur vegna uppþvottavélar, spegils á baðherbergi og viftu og leigusalinn ekki lagt fram nein gögn um kostnað umfram þá fjárhæð. Leigusali sagðist ekki hafa fengið bætt tjón vegna ísskáps, ljósa, skápa og ýmislegt annað sem ekki falli undir lögboðna brunatryggingu, til dæmis ljósleiðarabox.  Ágreiningur var um hvort ísskápur hefði verið í íbúðinni við upphaf leigutíma eins og leigusali bar við, en leigjandi sagði ísskápinn hafa verið í hennar eigu.

„Gegn eindreginni neitun sóknaraðila hér um sem og því að í leigusamningi aðila er ekki tekið fram að ísskápur fylgi íbúðinni og að engin úttekt var gerð við upphaf leigutíma verður að hafna því að varnaraðila sé heimilt að ráðstafa fjárhæð af tryggingarfénu vegna ísskáps,“ sagði í úrskurði nefndarinnar.

Karpað um kúpla

Leigjandi sagði að í íbúðinni hafi verið sjö einfaldir gamlir kúplar en að þrír þeirra hafi verið í geymslu þegar bruninn átti sér stað. Leigusali hvorki neitaði þessu né lagði fram gögn til stuðnings kröfu sinni. Nefndin úrskurðaði að leigjanda bæri að bæta tjón vegna fjögurra ljóskúpla og leigusala því heimilt að halda eftir 20.000 krónum sem nefndin taldihóflega áætlaðan kostnað vegna þessa. Öðrum kröfum leigusala í tryggingarféð vegna skápa, ljósleiðarabox, eða annarra tilgreindra muna, var hafnað þar sem nefndin taldi hann ekki hafa gert kröfu vegna þeirra innan fjögurra vikna frá skilum húsnæðisins.

Leigusala var því gert að endurgreiða leigjandanum tryggingarfé að fjárhæð 360.000 krónur ásamt vöxtum frá þeim degi sem tryggingarféð var lagt fram til 29. júní 2023 en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt