fbpx
Miðvikudagur 02.júlí 2025
Fréttir

„Þrátt fyrir mikla reiði vegna málsins verðum við að horfa til breiðari sjónarmiða“

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 10. október 2024 10:00

Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Tilgangur refsinga snýst ekki eingöngu um að refsa heldur einnig að endurhæfa og koma í veg fyrir frekari afbrot,“ segir Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, um mál ungs manns sem dæmdur var í tólf ára fangelsi í Landsrétti vegna manndráps sem hann framdi fyrir einu og hálfu ári. Greint var frá því í vikunni að maðurinn, sem er 19 ára gamall, væri kominn í afplánun á Vernd.

DV fjallaði um málið í vikunni þar sem fram kom að mörgum væri misboðið vegna málsins. „Þetta er nú bara brandari,“ sagði einn í athugasemdakerfum fjölmiðlanna á meðan annar sagði: „Mannslífið lítilsvert! Djöfulsins óréttlæti!…“

Fólki verulega misboðið: „Mannslífið lítilsvert! Djöfulsins óréttlæti“ – Helgi segir að hinn dæmdi sé alls ekki sloppinn

Í aðsendri grein á Vísi segir Guðmundur Ingi að málið kalli á umræðu um það hvernig við sem samfélag nálgumst ungt afbrotafólk innan íslenska fullnustukerfisins. „Þrátt fyrir mikla reiði vegna málsins verðum við að horfa til breiðari sjónarmiða,“ segir hann í grein sinni og bætir við að tilgangur refsinga snúi ekki eingöngu um að refsa heldur einnig um að endurhæfa og koma í veg fyrir frekari afbrot. „Það er nauðsynlegur þáttur í kerfinu út frá öryggi samfélagsins til lengri tíma,“ segir hann.

Markmiðið að auka líkur á betrun

Guðmundur Ingi bendir á að rannsóknir sýni að fangelsisvist ein og sér, án viðeigandi endurhæfingar, geti aukið líkur á að einstaklingar snúi aftur í samfélagið verr í stakk búnir til að takast á við lífið. Þetta eigi sérstaklega við um ungt fólk.

„Fangavist getur valdið djúpstæðri félagslegri útskúfun og takmörkuðum tækifærum til betrunar. Eins og afbrotafræðingurinn Helgi Gunnlaugsson hefur bent á, er markmiðið með reynslulausn eða öðrum úrræðum ekki að leyfa brotamönnum að sleppa við refsingu, heldur að auka líkurnar á betrun og draga úr frekari glæpum,“ segir hann.

Guðmundur Ingi segir að mál unga mannsins hafi vakið mikla umræðu um réttmæti þess að hann sé kominn á Vernd svo skömmu eftir hinn voveiflega atburð.

„Áfangaheimili eins og Vernd eru ekki frímiðar heldur mikilvægt skref í ferli sem miðar að því að undirbúa einstaklinga undir að snúa aftur í samfélagið. Þar er lögð áhersla á að kenna fólki rútínu, stuðla að atvinnuþátttöku eða námi og byggja upp heilbrigðan lífsstíl. Afplánun dóma í íslenska fullnustukerfinu fer fram á stigskiptan hátt: frá lokuðu úrræði yfir í opið úrræði, áfangaheimili, rafrænt eftirlit og loks reynslulausn. Þetta ferli miðar að því að tryggja smám saman betrun og aðlögun að samfélaginu,“ segir Guðmundur Ingi í grein sinni.

Hann vísar í lög um reynslulausn þar sem fram kemur að Fangelsismálastofnun hafi heimild til að veita ungu fólki sem brýtur af sér undir 21 árs, reynslulausn eftir að þriðjungur dóms hefur verið afplánaður.

„Þetta ákvæði miðar að því að verja ungt fólk fyrir neikvæðum áhrifum langvarandi fangavistar og gefa því tækifæri til að nýta tímann í endurhæfingu. Slík úrræði eru þó oft misskilin og óvinsæl í augum almennings, en það er nauðsynlegt að skilja að þau draga úr líkum á því að viðkomandi falli aftur í afbrot. Þetta úrræði kemur í veg fyrir að fleiri verði brotaþolar sömu einstaklinga.“

Verðum að einblína á lausnir til lengri tíma

Í grein sinni nefnir Guðmundur Ingi að Afstaða hafi lengi lagt áherslu á að ungt afbrotafólk afpláni sem skemmstan tíma í fangelsi því að langvarandi fangavist geti gert meiri skaða en gagn. Á sama tíma þurfi að tryggja að ungt fólk fái stuðning og leiðsögn til að vinna í eigin málum og forðast áframhaldandi brotastarfsemi.

„Rannsóknir benda til þess að fangelsi án betrunar geti orðið gróðrarstía fyrir áframhaldandi glæpastarfsemi, sérstaklega hjá ungu fólki sem á margra ára líf framundan. Áhersla á menntun, félagslegan stuðning og jafningjaráðgjöf getur dregið úr endurkomu í fangelsi,“ segir Guðmundur Ingi sem segir eðlilegt að fólk upplifi reiði í ljósi nýlegra mála. Sem samfélag verðum við þó að einblína á lausnir til lengri tíma.

„Fangavist sem einungis er hugsað sem refsing, án markvissrar betrunar, tryggir ekki að brotamenn falli ekki aftur í glæpi. Aftur á móti sýna rannsóknir að þegar ungu fólki er boðið upp á endurhæfingu, nám og jafningjaráðgjöf minnka líkur á endurteknum glæpum. Þess vegna er mikilvægt að við leggjum áherslu á betrun frekar en þunga refsingu,“ segir Guðmundur Ingi í grein sinni sem má lesa í heild sinni á vef Vísis.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Sverrir um ungu tæknitrúðana sem hanna gervigreind – „Þeir tala raunar eins og það sé þeim bókstaflega lífsspursmál að tortíma störfum fólks“

Sverrir um ungu tæknitrúðana sem hanna gervigreind – „Þeir tala raunar eins og það sé þeim bókstaflega lífsspursmál að tortíma störfum fólks“
Fréttir
Í gær

Telja að Trump dragi sig í hlé sem sáttasemjari á milli Rússlands og Úkraínu

Telja að Trump dragi sig í hlé sem sáttasemjari á milli Rússlands og Úkraínu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hraunað yfir Gunnar Smára og allt á suðupunkti hjá sósíalistum – „Þetta er svo vitlaust að það er bara hlægilegt“

Hraunað yfir Gunnar Smára og allt á suðupunkti hjá sósíalistum – „Þetta er svo vitlaust að það er bara hlægilegt“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kona sem flýði blokkina í Írabakka eftir ónæði í sjö ár – „Ég kvartaði næstum daglega í Félagsbústaði“

Kona sem flýði blokkina í Írabakka eftir ónæði í sjö ár – „Ég kvartaði næstum daglega í Félagsbústaði“