

Ferðamenn sem heimsækja landið hafa einnig tekið eftir þessu og hafa fjörugar umræður átt sér stað í Facebook-hópnum Reykjavik, ICELAND Travel & Vacation.
Þar birtir ferðamaður mynd af kvittun úr Vínbúðinni frá 20. ágúst síðastliðnum þar sem hann keypti sér 700 ml. flösku af Jameson-viskíi og 12 litlar dósir af Víking gylltum. Fyrir þetta borgaði hann 13.447 krónur.
Um er að ræða nafnlaust innlegg í hópnum en ferðamaðurinn segir að hann hafi rekið upp stór augu þegar hann kíkti inn á heimabankann sinn og sá að hann var rukkaður um 98 dollara fyrir áfengið. Spurði hann hvort þetta gæti staðist.
Meðlimir hópsins voru fljótir að benda honum á að svona væri þetta á Íslandi, áfengi væri mjög dýrt og líklega með því hæsta sem gerist. Eina landið þar sem áfengisverð er hærra sé líklega Noregur.
Einn segist til dæmis kaupa áfengi í fríhöfnum áður en hann heldur til Íslands vegna þess hversu hátt verðið er hér á landi. Benda einhverjir á að verðið í vínbúðunum sé þó ekki ýkja hátt miðað við verðið á veitingastöðum.
„Velkominn til Íslands. Landsins sem er virkilega fallegt en mjög dýrt,“ segir einn í umræðunum og annar bætir við að það sé sniðugt að fara til Íslands ef maður vill skella sér á snúruna og fara í megrun.