

Þorvaldur bendir á að virknin sé mest á norðurenda gossprungunnar og kvikustrókavirknin hafi verið stöðug og býsna öflug.
„Þó svo að kvikustrókum fari fækkandi þá eru strókarnir ansi öflugir,“ segir Þorvaldur við Morgunblaðið og nefnir að strókarnir nái 75 til 150 metra hæð, eða sem nemur 1-2 Hallgrímskirkjuturnum.
Hann segir að hraunið flæði til norðurs og eins og sakir standa afmarkist gosflæðið við óbyggð svæði þar sem innviðir eru ekki í sérstakri hættu. Það geti þó breyst og ekki megi útiloka það.
„Það er umhugsunarefni ef þetta heldur áfram að flæða til norðurs. Þá er alveg möguleiki á að innviðir sem eru þarna norðan við, eins og vatnsból Vogamanna og þeirra í Reykjanesbæ, jafnvel Reykjanesbrautin og kannski eitthvað meira, gætu orðið fyrir áhrifum af hraunflæði,“ segir Þorvaldur við Morgunblaðið í dag.