

Sérsveit ríkislögreglustjóra var kölluð út til að aðstoða lögregluna á höfuðborgarsvæðinu í aðgerðum í Áslandinu í Hafnarfirði nú í kvöld. Sjónarvottar sáu lögreglubifreið, þrjá ómerkta bíla og sérsveitina á svæðinu. Lögreglumenn á svæðinu eru með skildi og hjálma á höfði.
Helena Rós Sturludóttir, samskiptastjóri Ríkislögreglustjóra, staðfestir að sérsveitin var kölluð út til að aðstoða lögreglu en að öðru leyti svari lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fyrir málið.
Ekki hefur náðst samband við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu vegna málsins.
Uppfært: 20:32
Heimildir DV herma að umsátri lögreglu sé nú lokið og hafi karlmaður verið leiddur út úr fjölbýlishúsi í Þrastarási í járnum.
Að sögn fréttastofu RÚV var upphaflegt verkefni lögreglu að fara á vettvang til að afturkalla skotvopnaleyfi einstaklings og freista þess að fá vopn sem viðkomandi var skráður fyrir afhent. Mun vopnaeigandinn ekki hafa brugðist vel við þessari beiðni í byrjum. Þá var brugðið á að kalla samningamenn og sérsveit til aðstoðar. Eftir samtal við samningamenn gaf maðurinn sig fram og var handtekinn. Aðgerðir stóðu yfir í um tvo tíma.