Enginn hefur verið handtekinn vegna rannsóknar lögreglu á mannsláti í Bolungarvík í gær.
Fulltrúar úr tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu voru sendir vestur í gærkvöldi með þyrlu Landhelgisgæslunnar eftir að tilkynning um málið barst um kvöldmatarleytið.
RÚV hefur eftir Hlyni Snorrasyni, yfirlögregluþjóni hjá lögreglunni á Vestfjörðum, að rannsókn á vettvangi sé lokið og enginn hafi verið handtekinn í tengslum við málið. Von sé á tilkynningu frá lögreglu með morgninum.
Þá kemur fram í frétt RÚV að lögregla hafi ekki viljað staðfesta hvort fleiri en einn hafi látist.