Í grein sinni skrifa þau um símanotkun undir stýri og vísa í rannsóknir, bæði frá Evrópu og Bandaríkjunum, sem benda til þess að um 12-25% allra umferðarslysa megi rekja beint til notkunar farsíma við akstur. Ekkert bendi til þess að máluð sé öðruvísi háttað á Íslandi.
„Þetta þýðir að fjöldi slasaðra í umferðinni vegna farsímanotkunar er um 200 manns á ári, varlega áætlað.“
Í grein sinni benda Gunnar og Hrefna á að 229 hafi slasast alvarlega í umferðarslysum hér á landi í fyrra. „Árið 2024 hefur því miður farið skelfilega af stað með tilliti til umferðarslysa en þegar þetta er ritað hafa 10 látist í umferðinni á árinu. Því er til mikils að vinna að fækka umferðarslysum með öllum mögulegum ráðum.“
Þá segja þau að samkvæmt rannsóknum séu ökumenn fjórum sinnum líklegri til að lenda í umferðarslysum þegar þeir tala í síma undir stýri og sömuleiðis eru þeir 23 sinnum líklegri til að lenda í slysi þegar þeir nota símann í öðrum tilgangi, t.d. til þess að lesa eða skrifa skilaboð.
„Notkunin hægir á viðbragðstíma, sér í lagi hemlunartíma, en hægir líka á viðbrögðum við umferðarskiltum og ljósum. Verr gengur að halda viðeigandi fjarlægð á milli bíla og að halda sig á réttri akrein.“
Eðli málsins samkvæmt er mikilvægt að vera vakandi í umferðinni og segja þau að um leið og heilinn fer að fást við önnur verkefni fari athygli og þá sé voðinn vís. Í blandaðri umferð akandi og óvarinna vegfarenda sé sérstaklega mikilvægt að fylgjast vel með umhverfi sínu.
Gunnar og Hrefna segja að flestir þekki það eflaust að hafa freistast til að fikta í símanum undir stýri. Vísa þau í rannsókn Samgöngustofu þar sem fram kemur að 99% Íslendinga telji hættulegt að skoða samfélagsmiðla undir stýri og þar af telji 59% hegðunina vera stórhættulega.
„Hins vegar eiga 23% Íslendinga það til að skoða samfélagsmiðla undir stýri. Að sama skapi telja rúmlega 95% Íslendinga það hættulegt að skoða skilaboð undir stýri en 40% aðspurðra eiga það samt til að gera það. Um og yfir 50% telja í góðu lagi að stjórna tónlist/hlaðvörpum og hljóðbókum í símanum á meðan á akstri stendur. Það er hins vegar afar varhugaverð hegðun og hefur mikil áhrif á aksturshæfni.“
Segja þau umhugsunarvert hversu erfitt við í raun og veru eigum með að framfylgja skoðunum okkar og gildum og einnig sé sérstakt að sjá að fólk taki eina hegðun út fyrir sviga, í þessu tilviki að stjórna afþreyingarefni í síma. Þá benda þau á að farsímanotkun annarra undir stýri sé eitt af því sem truflar okkur hvað mest í umferðinni.
„Um 60% Íslendinga segja að farsímanotkun annarra trufli þá eða valdi þeim álagi við akstur og er þetta hlutfall nær 70% þegar kemur að yngstu ökumönnunum. Ljóst er því að mörg okkar væru til í að draga úr eða hætta þessari hegðun en við höfum mörg hver átt í miklum erfiðleikum með það.“
Benda Gunnar og Hrefna á að nú sé komin tæknilausn sem gerir okkur kleift að sýna stillingu við aksturinn.
„Akstursstilling (driving focus / driving mode) er valkostur sem í boði er í nýjustu stýrikerfum bæði Android og Apple símtækja. Þá er hægt að stilla símann þannig að hann fari í svokallaðan akstursham þegar símtækið tengist bluetooth í bílnum. Þá verður tækið hljóðlaust, engar tilkynningar berast og þannig er komið í veg fyrir truflun. Þessu má líkja við flugstillingu nema þetta gerist sjálfkrafa og einungis þarf að stilla símann einu sinni. Skilaboð og símtöl sem bárust á meðan á akstri stóð er svo hægt að skoða og svara á áfangastað.“
Í greininni kemur fram að Sjóvá og Samgöngustofa hafi ýtt úr vör herferðinni Ekki taka skjáhættuna. Í henni sé varpað ljósi á þá símanotkun sem á sér stað undir stýri í dag og henni líkt við sambærilega notkun tækja sem frekar voru notuð á síðustu öld.
„Sem dæmi hefði engum dottið í hug, hvorki á síðustu öld né núna, að skrifa bréf á ritvél samhliða því að aka bíl en sú hegðun er í raun sambærileg við að skrifa skilaboð á síma. Truflunin er sú sama, þ.e. hugurinn snýr sér að skilaboðunum og á meðan hættum við að huga að akstrinum. Hættan er sú sama en af einhverjum ástæðum samþykkjum við aðra hegðunina en ekki hina.“
Hægt er að kynna sér átakið nánar hér og lesa grein þeirra Gunnars og Hrefnu í heild sinni hér.