Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi og oddviti Pírata í borgarstjórn, fer hörðum orðum um fréttaskýringu Maríu Sigrúnar Hilmarsdóttur um lóðasamninga borgarinnar við olíufélögin. Í aðsendri grein á Vísir.is sakar hún Kastljós um að hafa sett fram áróður og rangfærslur borgarfulltrúa minnihlutans sem staðreyndir. „Sá var unninn í rannsóknarblaðamennskustíl Kveiks en frægt er orðið að efnið fékk ekki að birtast í síðasta Kveiksþætti vetursins þar sem hann þótti ekki tilbúinn til birtingar á þeim tímapunkti,“ skrifar Dóra Björt.
Hún segir að lykilhugsjón Pírata sé að standa með rétti almenning til góðra upplýsinga og með lýðræðislegri og upplýstri umræðu. Síðan segir: „Þetta hefur almenningur farið á mis við undanfarið eftir að fjölmiðill birti þátt undir yfirskini rannsóknarblaðmennsku sem hefur hingað til þótt trúverðugt fréttaefni þar sem hismið er greint frá kjarnanum og farið er í málin á dýptina byggt á faglegri heimildavinnu. Vandinn að þessu sinni voru rangfærslur og hrár áróður þeirra, sem vilja koma höggstað á meirihlutann í Reykjavík, sem klætt var upp sem „sjokkerandi staðreyndir“ undir fölsku flaggi.“
Dóra Björt segir helstu, en þó ekki allar, meintar rangfærslur í þættinum hafa verið leiðréttar í þessari tilkynningu á vef borgarinnar. Hins vegar hafi hún hlutast til um að óháð úttekt á vegum innri endurskoðunar borgarinnar fari fram á samningunum. Um þetta segir hún í greininni:
„Ég tel réttast að fá óháða úttekt á samningunum svo hægt sé að greiða úr þessari upplýsingaflækju og fá hið rétta fram, gott og slæmt. Þess vegna beitti ég mér fyrir því að tillaga þess efnis var samþykkt í borgarstjórn í vikunni. Ég hvet fólk til að mynda sér eigin upplýsta skoðun á þessu máli og ég virði að það komist ekki endilega öll að sömu niðurstöðu og varð ofan á.“
Hún telur að hún hafi fyrir sitt leyti komist að ígrundaðri niðurstöðu er hún mótaði afstöðu sína málsins á sínum tíma. Hún tilgreinir nokkur atriði sem hún telur varpa ljósi á samhengi málsins, þar hafi vegið þungt að rjúfa þá kyrrstöðu sem ríkt hafði varðandi áform um að fækka bensínstöðvum. Einnig skipti miklu máli að ákvörðunin stuðli að fjölgun íbúða á góðum svæðum í borginni. Atriðin eru eftirfarandi:
Sjá nánar hér.