Þetta er kannski ekki útleið, heldur leið til að vera áfram í Evrópu.
Þeir fara einfaldlega til Norður-Írlands, sem er hluti af Bretlandi, og þaðan geta þeir farið yfir til Írlands. Ekkert vegabréfaeftirlit er á landamærum Norður-Írlands og Írlands samkvæmt ákvæðum Brexit-samningsins og því er ekkert mál fyrir hælisleitendurna að komast til Írlands.
Helen McEntee, dómsmálaráðherra Írlands, sagði þingnefnd að um 80% af nýju förufólki í landinu hafi komið í gegnum Norður-Írland af ótta við að verða sent til Rúanda. Reuters skýrir frá þessu.
Michael Martin, utanríkisráðherra, sagði að vaxandi fjöldi förufólks á Írlandi og bresku Rúanda-lögin séu eðlileg afleiðing af getuleysi Breta í að hafa stjórn á straumi innflytjenda í kjölfar Brexit.
Í samtali við Daily Telegraph sagði hann að stefna Breta í málaflokknum hafi íþyngt Írum allt síðan fyrst var nefnt að senda ætti hælisleitendur til Rúanda. „En það var kannski ætlunin,“ sagði hann.
Flóttamannastraumurinn til Írlands hefur aukið enn á húsnæðisvandann í landinu en um 14.000 Írar er nú heimilislausir.
Á síðasta ári sóttu 13.000 um hæli á Írlandi en það eru tæplega fimm sinnum fleiri en 2019. Nú þegar eru rúmlega 100.000 flóttamenn á Írlandi, þar af eru um 75.000 frá Úkraínu.
Helen McEntee sagði þingnefnd í síðustu viku að hún muni fljótlega kynna neyðarlöggjöf sem veiti stjórnvöldum heimild til að afgreiða mál hælisleitenda hratt svo hægt verði að senda þá aftur til Bretlands.