Kona á sextugsaldri, sem gegnir stöðu stjórnanda á hjúkrunarheimili á Suðurlandi, snýr til baka úr sex vikna leyfi í dag sem var tilkomið vegna ásakana um kynferðislega áreitni við unga starfskonu á heimilinu.
Samkvæmt heimildum DV er ólga á meðal starfsfólks heimilisins vegna þessarar niðurstöðu. Konan hefur áður verið sökuð um áreitni við tvítugan karlkyns starfsmann en í báðum tilvikum hefur rannsókn á atvikum leitt til þeirrar niðurstöðu að orð standi gegn orði og því ekki um annað að ræða en að konan haldi starfi sínu.
Starfskonan unga sem borið hefur sakir á þennan yfirmann sinn fer hörðum orðum um hana í myndbandi á TikTok. Hún segir meðal nnars: „Þú gekkst langt yfir mörk sem yfirmaður með því að fokking káfa á mér og reyna að fokkings slumma upp í mig.“ – Sakar hún konuna einnig um að hafa sagt sér að kyssa eiginmann sinn og síðan hana sjálfa.
Aðili sem þekkir til málsins segir í samtali við DV segir að starfsfólki sé sérstaklega misboðið yfir því að þetta sé í annað sinn sem ásakanir af þessu tagi komi fram gegn konunni en í báðum tilvikum sé niðurstaðan sú að hún haldi starfi sínu en sé hvorki sagt upp né flutt til í starfi. Atvikið varðandi unga manninn mun hafa átt sér stað í fyrra. Bæði tilvikin komu upp í tengslum við skemmtanir starfsfólks á hjúkrunarheimilinu.
Hjúkrunarheimilið heyrir undir Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU). DV sendi fyrirspurn um málið á forstjóra HSU, Díönu Óskarsdóttur. Hún segist ekki geta tjáð sig um einstök mál en sagði einnig í skriflegu svari sínu til DV:
„Þegar við fáum alvarlegar tilkynningar til okkar virkjum við verkferla sem stofnunin býr yfir. Í því ferli felum við ávallt óháðum ráðgjöfum að rannsaka málið. Þau vinna svo skýrslu upp úr þeirri rannsókn og ráðleggja okkur um næstu skref.“