Í morgun var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjaness mál sem héraðssaksóknari hefur höfðað á hendur manni að nafni Adam Benito Pedie, en hann er þrítugur að aldri. Adam situr í gæsluvarðhaldi í fangelsinu á Litla-Hrauni.
Ákæruliðirnir gegn Adam eru fimm en þrír þeirra varða stórfelld fíkniefnabrot. Er hann í fyrsta lagi sakaður um að hafa í félagi við unga konu staðið að innflutningi til landsins á tæplega 300 g af kókaíni og rúmlega 615 g a ketamíni, ætluðum til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni. Er hann sagður hafa komið að skipulagningu, fjármögnun og öflun efnanna og fékk hann konuna til að móttaka efnin frá óþekktum aðila og koma þeim til Íslands. Konan flutti efnin til landsins með flugi frá Hollandi og hafði hún þau falin innvortis og í fötum sínum.
Hann er í öðru lagi sakaður um stórfellt fíkniefnabrot í félagi við aðra unga konu og eru þau sökuð um að hafa staðið að innflutningi á 124 g af kókaíni og rúmlega 230 g af ketamíni. Kom hann að skipulagningu, fjármögnun og öflun efnanna og fékk konuna til að móttaka efnin frá óþekktum aðila og koma þeim til landsins. Þessi kona kom einnig með efnin til landsins með flugi frá Hollandi, hafði hún þau falin innvortis og hugðist afhenda Adam þau við komuna til Íslands.
Adam er í þriðja lagi sakaður um að hafa staðið að innflutningi á 861,46 g af ketamíni sem hann flutti til landsins með póstsendingu frá Hollandi en lögreglumenn stöðvuðu sendinguna á pósthúsi þann 8. janúar síðastliðinn.
Adam er einnig ákærður fyrir að hafa haft amfetamín, kókaín og ketamín í fórum sínum þegar lögregla gerði húsleit hjá honum á heimili hans í Hamraborg. Hann er einnig ákærður fyrir að hafa framvísað í blekkingarskyni frönsku kennivottorði sem tilheyrir öðrum manni þegar lögreglumenn höfðu afskipti af honum fyrir utan heimili hans í Hamraborg.
Héraðssaksóknari krefst þess að Adam verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Einnig er krafist upptöku á þeim fíkniefnum sem hafa verið haldlögð í lögregluaðgerðum gegn honum.