Lögreglumenn í Ede í Hollandi hafa handtekið grímuklæddan mann sem réðst inn á skemmtistaðinn Café Petticoat, í bænum snemma í morgun og hótaði að sprengja sig í loft upp. Aðeins starfsfólk staðarins var statt á staðnum en gíslatakan stóð yfir í níu klukkutíma og voru um 150 hús í kringum skemmistaðinn rýmd.
Alls er talið að fimm einstaklingar hafi verið inni á staðnum þegar árásarmaðurinn lét til skarar skríða en að minnsta kosti fjórir þeirra fengu að yfirgefa staðinn á meðan atburðarrásin stóð yfir.
Myndir af vettvangi sýna gráklæddan mann færðan inn í lögreglubíl fyrir utan staðinn en ekki liggur fyrir hvað árásarmaðurinn hafði í huga né hvort að hann hafi sett fram einhverjar kröfur á meðan gíslatökunni stóð. Lögreglan á staðnum hefur þó útilokað að um hryðjuverkaárás hafi verið að ræða.