Salvör Nordal, umboðsmaður barna, hefur undanfarið hugleitt forsetaframboð, eftir að hafa fengið margar áskoranir um að bjóða sig fram.
Þann 5. mars ræddi hún þetta stuttlega við DV og sagðist ákveða sig á næstu tveimur vikum. Í dag birti hún yfirlýsingu um málið á Facebook-síðu sinni og mynd af niðurstöðu könnunar sem bendir til að margir telji hana eiga erindi í embættið. Hún segir engu að síður hafa ákveðið að bjóða sig ekki fram:
„Ég velti fyrst fyrir mér hlutverki embætti forseta Íslands af alvöru þegar ég tók þátt í líflegum umræðum um efnið í stjórnlagaráði á sínum tíma. Þá var tekist á um stjórnskipulega stöðu embættisins, samspili við aðra valdþætti og tengsl við lýðræðislega aðkomu almennings. Í framhaldinu skrifaði ég fræðigreinar m.a. um embættið sem valdtemprandi þátt í stjórnskipuninni og um þjóðaratkvæðagreiðslur. Ég hef í gegnum árin fengið hvatningu frá fjölmörgum um að fara í forsetakjör og á síðustu vikum tók ég mér tíma til að hugsa þetta aftur ekki síst í ljósi könnunar sem sýndi að ég gæti átt erindi í slaginn. Niðurstaðan er nú sem fyrr að bjóða mig ekki fram. Vissulega styttist í að ég ljúki tíma mínum sem umboðsmaður barna en þar eru fjölmörg mikilvæg verkefni framundan og einnig bíða ýmis hugðarefni tengd siðfræði, stjórnarskrármálum og lýðræði. Ég þakka innilega hlýjar kveðjur og hvatningu á síðustu vikum. Þær munu verða mér mikilvæg hvatning á öðrum vettvangi.“